Skíðar og skokkar samhliða lagagreiningunni

Hrannar Már Hafberg er vísindamaður mánaðarins

Hrannar Már Hafberg er lektor við Lagadeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hans snúa einkum að sönnunarfærslu fyrir dómi og rökstuðningi lögfræðilega úrlausna en hann hefur stundað nám á þeim sviðum bæði á Ítalíu og Spáni.

Hrannar hefur kynnt nokkur greiningarmódel í kennslu og leggur stund á vinnu við að koma þeim í form svo kynna megi aðferðirnar fyrir íslenskum laganemum og lögfræðingum. Þar byggir hann að nokkru leyti á vinnu Genúa-skólans í lögskýringum þar sem hann hefur verið við nám. Þá er Hrannar einn fárra sem leggja stund á réttarsiðfræði sem lítið hefur farið fyrir í umfjöllun íslenskra fræðimanna.

Vinnur að verkefnum á sviði réttarsiðfræðinnar

„Þessa dagana snýst allt um að ljúka kennslu og undirbúa prófatíðina. Þetta hefur verið annasamur vetur bæði hjá nemendum og okkur kennurunum en bráðum förum við að binda endahnútinn og uppskera eftir erfiði vetrarins. Þá bíður okkar nokkur vinna í innra starfi innan Lagadeildarinnar en þar erum við stöðugt að endurskoða námið og kennsluna, finna hvar við getum bætt okkur og gert enn betur en áður. Það er auðvitað eilífðarverkefni en við reynum að taka nokkur skref í rétta átt sem til þarf hverju sinni. Svo tekur auðvitað við tímabil rannsókna og undirbúnings næsta skólaárs. Ég hef verið með nokkur verkefni í undirbúningi, meðal annars sem snúa að almennum refsirétti og svo um sakamálaréttarfar, en á döfinni eru einnig verkefni á sviði réttarsiðfræðinnar og svo gerð kennsluefnis um vinnubrögð í laganámi sem er hugsað sem leiðarvísir fyrir laganema,“ segir Hrannar.

Hver er Hrannar?

Hrannar er fæddur og uppalinn í Reykjavík og lærði bæði heimspeki og lögfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur stundað nám í Svíþjóð, Írlandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu, þar sem hjartað hans slær að nokkru leyti að eigin sögn í takt við ölduganginn við fjöruborð Miðjarðarhafsins. Hann hefur starfað bæði hjá ákæruvaldinu, dómstólum og sem lögmaður en sinnir nú aðallega störfum við Lagadeild háskólans. Hann á rík tengsl við Akureyri en þar hefur hann starfað að verulegu leyti sl. 14 ár, bæði hjá dómstólum, opinberum stofnunum og háskólanum, þar sem hann hefur komið að kennslu frá 2008. Fyrir rúmum tveimur árum var hann ráðinn í fullt starf og sinnir að mestu kennslu og rannsóknum í sakamálaréttarfari og refsirétti. Í frítíma sínum kýs Hrannar helst að renna sér á skíðum eða fara á gönguskíði en þegar snjóa leysir þá reynir hann að skokka. Hann á nokkur maraþon undir beltinu og ótalin hálfmaraþon þótt sl. tvö ár hafi reynst honum þungbær vegna þrálátra meiðsla. Það stendur þó allt til bóta heldur hann og lætur sig hlakka til hlaupasumarsins 2022.

Nýjast