Skapandi greinar í öndvegi í Grenivíkurskóla

Inga María Sigurbjörnsdóttir, kennari, Guðrún Árnadóttir kennari, Hólmfríður Björnsdóttir kennari, Þ…
Inga María Sigurbjörnsdóttir, kennari, Guðrún Árnadóttir kennari, Hólmfríður Björnsdóttir kennari, Þórunn Rakel Gylfadóttir rithöfundur og Þorgeir Rúnar Finnsson skólastjóri. Myndir: Þórunn Rakel.

Geta börn opnað bókabúð með eigin ritverkum?

Svo virðist vera því um það snýst einmitt verkefni sem nú er hafið á miðstigi  í Grenivíkurskóla um þessar mundir. Það vantar ekki sköpunarkraftinn hjá börnunum að sögn kennara skólans en áhugi þeirra er með eindæmum.

Verkefnið uppfyllir kröfur um samþættingu námsgreina en það felur í sér að tengja saman tvær eða fleiri námsgreinar á markvissan hátt til að ná ákveðnum markmiðum. Þetta getur gert námið merkingarbærara fyrir nemendur og hjálpað þeim að sjá samhengi milli mismundandi fræðasviða. Samþætting námsgreina er einnig í takt við áherslur aðalnámskrár, sem leggur áherslu á að nemendur fái fjölbreytt og heildstætt nám.

Leikur að málinu

„Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að leggja ætti meiri áherslu á sköpun, leik og tjáningu í íslenskukennslu. Tungumál eru fyrst og fremst til að segja skoðun okkar, tjá tilfinningar, standa á rétti okkar, koma sjónarmiði okkar á framfæri o.s.frv. Tungumálakennsla ætti ekki að hverfast um rétt og rangt. Miklu heldur ættum við að efla væntumþykju til yndislega tungumálsins okkar í gegnum sögur og frjálsa tjáningu,“ segir Þórunn Rakel Gylfadóttir, rithöfundur sem hefur yfirumsjón með verkefninu í samtarfi við kennara á miðstigi Grenivíkurskóla.

Verkefnið mun reyna á ritun, stafsetningu, málfræði, hönnun, umbrot, bókhald, markaðssetningu, framsögu, samskipti, samvinnu, sagnfræði, bókmenntir, myndmennt, upplýsingatækni og ýmislegt fleira.

Verkefnið hlaut 2,7 milljónir úr sprotasjóði Rannís sem veitti styrki til 32 skólaþróunarverkefna fyrir yfirstandandi skólaár.

Rithöfundar framtíðarinnar

undirbúa bókaverslun

Þórunn Rakel kynnir verkefnið fyrir foreldrum.

 Guðrún Árnadóttir kennari á miðstigi Grenivíkurskóla segir að það sé unun að taka þátt í þessu með börnunum sem eru á aldrinum 10-12 ára, þau séu afar áhugasöm og skapandi.

„Þau eru bara að skrifa sögur sem síðan verða bókum sem þau búa einnig til sjálf. Svo verðum við með þetta allt til sölu í  bókabúð sem verður opin í desember í einn dag,“ útskýrir Guðrún og kveðst vera afar stolt af nemendum sínum.

„Börnin taka þessu mjög vel og eru afar áhugasöm. Rakel hefur verið að koma oft norður til okkar og er bara að fylgja þeim eftir og þau eru öll að skrifa. Svo eru þau líka að taka viðtöl við heimafólk úr hreppnum,- það verða svona sögur úr hreppnum sem síðan fer í bók. Svo verða smásögur og myndverk eftir börnin. Rakel tekur þetta út og fer yfir þetta með þeim og leiðbeinir þeim við þetta,“ útskýrir Guðrún.

Jólabókin úr heimabyggð

Aðstoðar strákana

Rakel aðstoðar áhugasama strákana, Pál Þóri Þorkelsson og Alexander Hákonsson.

 Guðrún segir að verkefnið standi yfir alla haustönnina enda sé það yfirgripsmikið og að ýmsu að huga. Því muni svo ljúka með jólabókaflóði í Grenivíkurskóla í desember og ekki ólíklegt að margar jólagjafir á Grenivík komi úr þessu litla útgáfufyrirtækja barnanna í Grenivíkurskóla þetta árið. „Já við erum að hugsa um 5. Desember. Þá ætlum við að vera með opna búð hjá okkur. Það verða til sölu bækur eða textaverk, myndir eftir börnin og  svo eru þau líka að sauma poka sem verða til sölu, jólakort og tækifæriskort, merkimiðar og allskonar sem verður á boðstólnum. Þau búa þetta allt til sjálf. Þetta er rosalega skemmtilegt og spennandi. Krakkarnir eru að standa sig ótrúlega vel, þau eru bara alveg á fullu við þetta,“ segir Guðrún og bætir við að sú hugmynd hafi einnig vaknað að láta gott af sér leiða með versluninni.

Styrkja gott málefni í leiðinni

„Já okkur langar til að styrkja eitthvað gott málefni. við erum reyndar ekki búin að velja hvað það verður. Við ákváðum að byrja fyrst á því að búa til eitthvað gott efni en svo vorum við búin að tala um að við myndum styrkja eitthvað gott málefni með þessu,“ segir Guðrún að lokum.

Grenivík 4

 

 

Nýjast