Skálabrún og Húsheild/Hyrna kaupa Viðjulund 1

Halldór Jóhannsson stjórnarformaður Skálabrúnar og Guðlaugur Arnarsson framkvæmdastjóri Húsheild/Hyr…
Halldór Jóhannsson stjórnarformaður Skálabrúnar og Guðlaugur Arnarsson framkvæmdastjóri Húsheild/Hyrnu við undirritun samnings

Skálabrún (100% dótturfélag KEA) og Húsheild Hyrna hafa keypt fasteignir og lóð við Viðjulund 1 á Akureyri. Á þeirri lóð hefur verið samþykkt nýtt deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir rúmlega 6.000 fm byggingarmagni og stefnt er að því að þar verði 40-50 íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum sem verða 5 og 6 hæða.

Skálabrún og Húsheild-Hyrna eru í þessu verkefni að spreyta sig á nýrri umgjörð verkefnis á þessu sviði. Farið verður yfir hönnunarforsendur á næstu vikum og sú hönnun sem þegar hefur farið fram verður endurmetin en vonast er til að það verði hægt að hefja framkvæmdir á lóðinni strax í sumar ef öll undirbúningsvinna og hönnun gengur að óskum. Reiknað er með töluverðum áhuga á nýjum íbúðum í þessu hverfi en engin ný fjölbýlishús hafa risið þar í nokkuð langan tíma. Það er stutt í skóla, íþróttasvæði og verslanir en það er markmið eigenda verkefnisins að vera með blöndu af ólíkum tegundum fjölbýlisíbúða þannig að þarna finni allir kaupendahópar eitthvað við sitt hæfi.

Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Skálabrúnar

KEA hefur tekið stefnumarkandi ákvörðun um að ráðstafa umtalsverðum hluta af efnahagsreikningi sínum í fasteignatengd verkefni, bæði á sviði fasteignaþróunar, útleigu atvinnuhúsnæðis sem og útleigu íbúðarhúsnæðis til almennings. Það gerum við í gegnum dótturfélagið Skálabrún sem nýverið keypti 120 íbúðir af Íveru til útleigu á almennum markaði. Þetta er fyrsta fasteignaþróunarverkefnið sem Skálabrún ræðst í og það er gert í samstarfi við Húsheild Hyrnu í þetta skiptið og erum við full tilhlökkunar þar sem við erum að fikra okkur áfram inn í nýja umgjörð í fasteignaþróun þar sem fjárfestir og byggingaverktaki leggja saman krafta sína.

Guðlaugur Arnarsson, framkvæmdarstjóri Húsheild/Hyrnu

Við hjá Húsheild/Hyrnu erum spenntir fyrir þessu verkefni með Skálabrún. Hluti af stefnumótun fyrirtækisins er fjölga verkefnum sem eru unnin á hverjum tíma, ásamt því að koma að fjölbreytttum verkefnum sem snúa að fasteignaþróun hérna á Akureyri.

Viðjulundar verkefnið fellur vel að þeirri stefnu þar sem hugmyndin er að byggja fjölbreyttar íbúðir fyrir breiðan markhóp.

Nýjast