Sjómönnum boðið í heimsókn á Iðnaðarsafnið
mth@vikubladid.is
„Þetta er eitt lítið skref og vonandi það fyrsta í þá átt að við Akureyringar náum að endurvekja sjómannadaginn,“ segir Sigfús Helgason safnvörður á Iðnaðarsafninu á Akureyri, en þar verður í boði dagskrá í dag, föstudag í tilefni af komandi sjómannadegi á sunnudag. Hann segir helsta hátíðardag sjómann því miður hafa legið í dvala í höfuðstað Norðurlands of lengi. Samkoman er haldin í samvinnu við Sjómannafélag Eyjafjarðar.
Með framtakinu sé markmiðið að reyna að blása nýju lífi í daginn, en sjómönnum er boðið í heimsókn á safnið strax eftir hádegi. Boðið verður upp á veitingar, vöfflur og kakó yfir daginn sem hægt er að gæða sér á milli þess sem menn skoða safnið eða setjast niður við spjall um daginn og veginn. „Við eigum nokkur skipslíkön og höfum verið á fullu við að útvega okkur fleiri slík til að segja upp litla sýningu á þeim. Við eigum líka eitt og annað sem tengist sjómennsku og vinnu í landi sem tengist fiskveiðum og vinnslu,“ segir Sigfús.
Sigling með Húna
Hann segir að þetta sé framlag Iðnaðarsafnsins til að blása lífi í sjómannadaginn á Akureyri á ný. „Við vonum að sjómenn kunni að meta þetta og kom í heimsókn, eigi notalega stund með félögum, hlusti á og segi sögur.“
Klukkan 17 um daginn verður sjómönnum boðið í siglingu með Húna II en í ferðinni mun Árni Björn Árnason fyrrum formaður Verkstjórafélagsins á Akureyri að segja sögu skipasmíða við Pollinn. „Þetta verður örugglega fróðlegt erindi, Árni Björn hefur safnað að sér ógrynni af fróðleik um þetta efni er mikill áhugamaður um smábáta, smíði þeirra og yfirleitt allt sem þeim tengist,“ segir Sigfús.
Þá verður Siglingaklúbburinn Nökkvi með opið hús allan föstudaginn og sýnir nýtt og glæsilegt klúbbhús.