Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga á Norðurlandi eystra
Fjöldi íbúða sem eru í byggingu á Norðurlandi eystra er ekki nægilega mikill til að uppfylla þörf samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna í landshlutanum. Það er mat HMS sem byggir á nýlegri talningu á íbúðum í byggingu.
Róbert Smári Gunnarsson og Jón Örn Gunnarsson eru sérfræðingar á húsnæðissviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hafa tekið saman tölur um stöðu íbúðabyggingar í fjórðungnu, og framtíðarhorfur.
Róbert segir að öll sveitarfélög á Norðurlandi eystra hafi endurskoðað og samþykkt húsnæðisáætlun fyrir árið 2024. Samkvæmt miðspá sveitarfélaganna spá þau að íbúum á svæðinu muni fjölga um 2.126 manns á næstu fimm árum og 4.137 á næstu tíu árum.
Þörf fyrir nærri 280 íbúðir á ári
„Áætluð íbúðaþörf í landshlutanum eru 1.398 íbúðir á næstu fimm árum og 2.688 íbúðir næstu tíu ár, en íbúðaþörf tekur mið af forsendum um mannfjölgun og fjölskyldusamsetningu sem sveitarfélögin setja fram. Áætluð íbúðaþörf á ári er því að meðaltali um 280 íbúðir,“ segir Jón Örn.
Samkvæmt síðustu septembertalningu HMS á íbúðum í byggingu voru 407 íbúðir í byggingu á Norðurlandi eystra að sögn Jóns. Fjöldi íbúða í byggingu er svipaður og hann var fyrir ári síðan þ.e. 413 íbúðir en um 8% færri en fyrir tveimur árum, þegar 442 íbúðir voru í byggingu.
Róbert nefnir að í fyrra þá hafi 126 íbúðir komið fullbúnar inn á markað í landshlutanum og að þær séu nú orðnar 178 í ár. Þá sé ekki útlit fyrir að það náist að klára nægilega margar íbúðir í ár til þess að uppfylla áætlaða þörf fyrir nýjar íbúðir. Íbúum hafi fjölgað um 437 manns fram til þessa sem er nokkuð í takt við spár sveitarfélaganna samkvæmt húsnæðisáætlunum þeirra.