Hvar er fjárveitingin í Húsavíkurflugið?
Þingeyingar hafa lengi barist fyrir því að áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði viðhaldið enda um mikilvæga samgöngubót að ræða, ekki síst fyrir heimamenn, ferðamenn og blómlegt atvinnulíf í Þingeyjarsýslum.
Þann 1. apríl sl. lagðist áætlunarflugið af eftir að Flugfélagið Ernir hafði haldið úti reglulegu flugi til Húsavíkur í nánu samstarfi við hagsmunaaðila frá árinu 2012.
Frá því í vor hefur verið unnið að því að kalla eftir skilningi stjórnvalda á mikilvægi þess að ríkið komi að fluginu með sambærilegum ríkisstyrkjum og þekkist í dag til annarra áfangastaða víða um land. Hvað það varðar hefur verið leitað eftir stuðningi frá þingmönnum Norðausturkjördæmis, ráðuneytisfólki, Vegagerðinni og Svandísi Svavarsdóttir þáverandi innviðaráðherra sem nýlega lét af störfum.
Ekki síst vegna þrýstings hagsmunaaðila var flug til Vestmannaeyja og Húsavíkur boðið út fyrr á þessu ári til þriggja mánaða. Framsýn hefur hins vegar lagt áherslu á að styrkurinn væri á ársgrundvelli með það að markmiði að tryggja öruggar flugsamgöngur milli landshluta, það er Húsavíkur og Reykjavíkur til framtíðar.
Vegagerðin varð ekki við þeirri ósk og bauð flugið aðeins út í þrjá mánuði, það er yfir vetrarmánuðina desember til febrúarloka yfir þriggja ára tímabil, samtals níu mánuði. Á vef Vegagerðarinnar frá því í mars má lesa að fyrirsjáanleiki sé kominn í flug til þessara staða, þannig að áform séu um að fljúga með ríkisstyrk þessa mánuði og það útboðsferli sé komið í gang með það að markmiði að semja um þjónustuna. Takið eftir, semja um þjónustuna sem ekkert hefur orðið úr, mörgum mánuðum síðar hvað Húsavík varðar.
Eftir yfirferð Vegagerðarinnar var ákveðið að semja við Mýflug um áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þrátt fyrir að hafa fengið tilboð í áætlunarflugið til Húsavíkur frá sama flugfélagi virðist sem fjármagnið í flugleiðina hafi gjörsamlega gufað upp og tilboðið sé því fallið úr gildi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.
Í svari til Framsýnar kemur fram að Vegagerðin hafi ekki fengið fjárheimild til verkefnisins, aðeins hafi fengist fjármagn fyrir flugleiðina til Vestmannaeyja. Af hverju Vegagerðin bauð flugið út til Húsavíkur án þess að hafa örugga fjárheimild til þess er ekki vitað. Hins vegar virðist sem það sé tregða í kerfinu að standa skil á þeim fjármunum sem voru hugsaðir í Húsavíkurflugið. Hvað veldur, þetta kallar á svör frá þeim sem eru með málið á sínu forræði. Getur verið að það sé pólitísk andstaða að halda úti áætlunarflugi til Húsavíkur? Í það minnsta er þögn þingmanna kjördæmisins yfirþyrmandi.
Ég vil skora á þingmenn Norðausturskjördæmis að taka málið upp og kalla eftir skýrum svörum, það á ekki síst við um Njál Trausta Friðbertsson formann fjárlaganefndar Alþingis og Ingibjörgu Isaksen fyrsta þingmann kjördæmisins, en Framsóknarflokkurinn stýrir Fjármálaráðuneytinu um þessar mundir sem og Innviðaráðuneytinu sem fara með þessi mál. Hæg eru heimatökin.
Þingmenn kjördæmisins skulda Þingeyingum svar við þessari spurningu, hvað varð um fjárheimildina sem átti að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur í þrjá mánuði á ári í þrjú ár? Svar óskast fyrir komandi kjördag 30. nóvember 2024, en samkvæmt útboði Vegagerðarinnar átti áætlunarflugið að hefjast um næstu mánaðamót.
Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags