Sjö byggingar, ólíkar að stærð og formi mynda nýja húsaröð
mth@vikubladid.is
Fjölbreytt útirými sem mótuð eru með sjö byggingum, ólíkum að stærð og formi eru meginatriði í þeirri tillögu sem vann til verðlauna í hugmyndasamkeppni um skipulag á Torfunefni á Akureyri. Tillagan er frá Arkþingi en alls bárust sjö tillögur í samkeppnina. Í öðru sæti var tillage frá sænskri arkitektastofu, Mandaworks og tillaga frá Arkidea Arkitektum varð í þriðja sæti.
Byggingarnar sjö mynda húsaröð og aðdraganada að Menningarhúsinu hofi, en samkvæmt tillögunni er gönguleiðin endurbætt á áhugaverðan hátt.Þessi nýja byggð myndar fjölbreytta bæjarmynd séð frá Pollinum auk þess sem götumynd Glerárgötu er mótuð m.a. með útrýmum mót vestri. Þjónustuhúsi hafnarinnar er komið fyrir undir settröppum sem snúa að vel mótuðu viðburðatorgi og er gert ráð fyrir tengingu við innirými syðstu hosanna.
Vel skipulögð hafnarhverfi hafa mikið aðdráttarafl
Ásthildur Sverrisdóttir bæjarstjóri á Akureyri var formaður dómnefndar og tilkynnti um úrslit í samkeppninni við athöfn í húsakynnum Hafnasamlags Norðurlands. Í inngangi að dómnefndaráliti segir Ásthildur skipulagsyfirvöld bæja og borga um allan heim sífellt gera sér betur grein fyrir því gríðarlega aðdráttarafli sem vel skipulögð hafnarsvæði með blandaðri starfsemi hafi fyrir íbúa og ferðafólk. Því hafi mikil áhersla verið lögð á faglega uppbyggingu á þessum verðmætu svæðum sem liggja að hafi, sjó eða stærri fljótum. Svæðið í kringum hina gömlu Torfunefsbryggju á Akureyri hafi alla burði til að verða blómleg miðstöð mannlífs með beina tengingu við miðbæinn og Menningarhúsið Hof.
Í tillögunni er sérstaklega unnið með tengsl við miðbæinn, annars vegar með porti við gatnamót Kaupvangsstrætis sem leggur áherslu á leiðina niður að bryggju og hins vegar með ákveðinni rýmismyndun og áfangastað við nyrði tenginguna í framhaldi af nýju göturými vestan Glerárgötu.
Stálþil rekið niður næsta haust
Sigríður María Róbertsdóttir markaðsstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands segir að stefnt sé að því að fara yfir tillöguna með Arkþingi á næstu vikum og setja upp skýrari línur sem síðan verður unnið út frá.
Fyrirhugað er að reisa stálþilsbryggju töluvert utar en núverandi þil er og stækka uppland bryggjunnar. Svæðið er austan Glerárgötu og er alls um 0,9 hektarar að stærð.
Uppfylling við höfnina er þegar hafin, en stefnt er að því að reka nýtt þil niður við Torfunefsbryggju næsta haust. Vorið 2023 er svo ráðgert að steypa kantinn og að því loknu verður þekjan gerð klár. Gert er ráð fyrir að í lok þess árs eða byrjun þess næsta verði komið að því að hefja framkvæmdir við uppbygginu á nýja hafnarhverfinu.