20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Sjávarútvegurinn er á undan stjórnvöldum í innleiðingu umhverfisvænnar tækni“
Hákon Þröstur Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja var endurkjörinn í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ( SFS) á ársfundi samtakanna sem haldinn var 3. mai s.l.
Hákon Þröstur þekkir vel til starfsemi SFS, var í stjórn 2019 – 2020 og samfellt frá 2022. Hann er menntaður skipstjórnarmaður og var í liðlega tvo áratugi skipstjóri á skipum Samherja, síðustu sautján árin hefur hann hins vegar starfað á útgerðarsviði félagsins.
Óbein störf sem tengjast sjávarútvegi skipta þúsundum
„Sjávarútvegur er burðarás atvinnulífsins víða á landsbyggðinni, svo sem á Eyjafjarðarsvæðinu, og er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Þessu til staðfestingar nægir að nefna að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári voru 352 milljarðar króna og bein störf í sjávarútvegi eru á bilinu átta til níu þúsund. Óbein störf sem tengjast sjávarútvegi skipta þúsundum, enda hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki verið framarlega í innleiðingu margra tækninýjunga og tekið þannig þátt í að skapa ný vel launuð störf, svo sem á sviði hátækni.
Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því óska eftir starfskröftum mínum næsta árið.“
Olíunotkun hefur dregist saman um 40%
Hákon Þröstur hefur tekið virkan þátt í stefnumótun og málefnavinnu SFS á undanförnum árum, svo sem á sviði umhverfismála.
,,Í vor var kynnt ný umhverfisskýrsla SFS og þar kemur fram að íslenskur sjávarútvegur hefur dregið úr olíunotkun á hafi um nærri 40 % frá árinu 1990. Eins og við þekkjum hafa fiskimjölsverksmiðjurnar neyðst til að keyra á olíu, þrátt fyrir rafvæðingu þeirra. Samdrátturinn væri líklega um 50 % ef ekki hefði komið til skerðingar á raforku til verksmiðjanna á síðustu tveimur árum. Víð Íslendingar berum okkur gjarnan saman við Noreg, þar í landi hefur sjávarútvegurinn dregið úr olíunotkun um 10% á síðustu tveimur áratugum. Þá er búið að skipta út kælimiðlum í fiskiskipaflotanum og taka í notkun umhverfisvænni búnað.