Selur á Akureyri
Fjöldi fólks hefur fylgst með sel sem lagðist síðdegis á trébryggju siglingaklúbbsins Nökkva á Akureyri. Svo spakur er selurinn a hann hreyfir sig varla þótt mannfólkið nálgist hann. Ekki er algengt að selir leggjist á trébryggju Nökkva. Akureyringur sem var að fylgjast með þessum óvenjulega gesti, sagðist þó muna eftir sel sem lá á bryggjunni í talsverðan tíma fyrir nokkrum árum síðan.
Landselur er algengasti selurinn við Íslandsstrendur og heldur hann helst til við norðvestanvert landið. Selurinn getur orðið um 2 m að lengd og rétt yfir 100 kg að þyngd fullvaxinn og eru brimlarnir stærri en urturnar.