Gera athugasemdir við úthlutun byggðakvóta til Raufarhafnar

Frá Raufarhöfn   Mynd epe
Frá Raufarhöfn Mynd epe

Á fundi byggðarráðs Norðurþings í síðustu viku var fjallað um úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024- 2025.

Þar voru gerðar alvarlegar athugasemdir við úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024/2025 og fer ráðið fram á hámarksúthlutun fyrir Raufarhöfn sem fær óbreytta úthlutun á milli ára eða 164 tonn. Hámarksúthlutun almenna byggðakvótans til einstaka byggðarlaga er 285 tonn.

„Efnahagslegur ávinningur við litlar sjávarbyggðir með úthlutun byggðakvóta, bæði úr almenna kerfinu og því sértæka er öllum ljós. Það eykur líkur á að íbúar og fyrirtæki staðsetji sig á Raufarhöfn enda byggir atvinnulífið að stórum hluta á sjávarútvegi. Úthlutun á byggðakvóta tryggir betri aðstöðu fyrir sjávarbyggðir varðandi innviði og atvinnu, bætir lífsgæði og tryggir byggðafestu. Byggðakvóti er til að stuðla að jöfnuði og jafnrétti milli bæja og sveitarfélaga á Íslandi. Markmiðið er að skapa góða byggð fyrir öll og stuðla að jafnvægi í þróun landsbyggðanna. Byggðakvóti er tæki sem hefur verið notað til að stuðla að jafnari dreifingu á fiskveiðiheimildum,“ segir m.a. í bókun ráðsins.

Þar segir jafnframt að Raufarhöfn hafi verið fyrsta byggðin á Íslandi sem fór í verkefni byggðastofnunar Brothættar byggðir. Það sé engin vafi á því að sértæki byggðakvótinn sem veittur var og er til Raufarhafnar í gegnum verkefnið styður við markmið um úthlutun byggðakvóta til sjávarbyggða eins og Raufarhafnar.

„En sértæki byggðakvótinn sem Raufarhöfn hefur fengið í gegnum þessi verkefni hefur dregist verulega saman á síðustu árum og að mati byggðarráðs Norðurþings verður að rétta þann halla af með frekari úthlutun til Raufarhafnar í gegnum almenna byggðakvótann. Einnig vekur ráðið athygli á að töluvert af aflamarki smærri útgerða hefur verið selt á síðustu árum frá Raufarhöfn bæði í krókaaflamarkinu og almenna kerfinu,“ segir í bókuninni.

 

Nýjast