Sköpuðu dýrmætar minningar á Bessastöðum
Fimmtudaginn 13. febrúar síðastliðinn lagði stór hluti nemenda og starfsfólks Framhaldsskólans á Húsavík í menningarferð til Bessastaða. Ferðin var skipulögð með það að markmiði að veita nemendum innblástur og skapa dýrmætar minningar. Ferðin hófst frá Framhaldsskólanum klukkan 10:30 um morguninn, og eftir nokkur stopp á leiðinni náði hópurinn til Reykjavíkur. Fyrsta viðkoman var Shake & Pizza, þar sem nemendur og starfsfólk nutu dýrindis pizzahlaðborðs. Að því loknu héldu þau í diskókeilu í Keiluhöllinni þar sem nemendur sýndu mikla keilusnilld. Gist var í Íþróttahúsinu Dalshúsi í Grafarvogi.
Á föstudagsmorgni fóru nemendur í sitt fínasta púss, þar sem ferðinni var heitið til Bessastaða til að hitta forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Hópurinn fékk gríðarlega góðar móttökur hjá Höllu, sem ræddi við þau um jafnrétti, ofbeldi og mildi, meðal annars. Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, færði Höllu gjöf frá skólanum. Auk þess færði Hrefna Björk Hauksdóttir, formaður Nemendafélags Framhaldsskólans á Húsavík, Höllu gullmerki skólans að gjöf. Eftir móttökuna fengu nemendur og starfsfólk leiðsögn um Bessastaði, þar sem þau kynntu sér sögu staðarins og fyrrum forseta lýðveldisins. Að heimsókn lokinni fór hópurinn í mathöllina í Kringlunni, þar sem þau nutu veitinga og höfðu stutt stopp áður en haldið var heim á leið.
Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari, var að vonum ánægð með ferðina og sagði í samtali við blaðamann að tilviljun á kennarafundi hafi ráðið því að ákvörðun var tekin um að fara í ferðina.
Hugmyndin kviknaði á kennarafundi
„Það var mjög einfalt. Ég var eitthvað að rifa upp á kennarafundi þegar ég fór með nemendur og starfsfólk Framhaldsskólans á Lauga í heimsókn til Bessastaða,“ segir Valgerður en hún var um árabil skólameistari Framhaldsskólans á Laugum í Reykjadal.
„Sú ferð kom þannig til að Dorrit og Ólafur Ragnar, þá forseti Íslands komu og heimsóttu skólann þegar fjárskaðinn varð árið 2012,“ segir Valgerður og vísar til þess þegar kröftug haustlægð skall óvenju snemma á Norður- og Norðausturlandi í september 2012. Fé fennti í kaf og rafmagn fór víða af.
Dorrit sló í gegn
„Krakkarnir þyrptust í kringum Dorrit og voru dolfallnir yfir henni, og hún svo hrifin af krökkunum líka að hún lagði það til við Ólaf hvort að krakkarnir gætu ekki bara komið og gist hjá þeim á Bessastöðum. Ekki var Ólafur alveg á því, en sagði að þau væru velkomin í heimsókn,“ botnar Valgerður.
Þegar skólameistarinn rifjaði upp þessa sögu á kennarafundi í FSH á Húsavík, spurði einn starfsmaður hvort þau gætu ekki farið líka í heimsókn til Bessastaða. Valgerður tók viðkomandi á orðinu og hafði samband við skrifstofu forseta með ákveðna dagsetningu í huga. „Ég spurði hvort við gætum fengið að koma í heimsókn, og fékk fljótlega svar um að þau við værum velkomin og forsetinn vildi hitta krakkana,“ segir Valgerður en auk þess fengju þau leiðsögn um húsið og staðinn.
Stolt af krökkunum
„Þetta var bara alveg ofboðslega vel heppnuð ferð og ég var svo stolt af krökkunum. Við komum til Reykjavíkur á fimmtudagskvöldi. Við fórum í Egilshöll, þar sem borðuð var pizza. Síðan gistum við í Íþróttahúsinu í Grafarvogi, sem Fjölnir er með. Við gistum þar í svefnpokum, og krakkarnir fengu að leika sér í salnum eftir að þau komu inn. Síðan var farið á Bessastaði morguninn eftir, borðað í Kringlunni á eftir, og að sjálfsögðu ráfað aðeins um búðirnar áður en haldið var heim seinnipartinn á föstudeginum. Þetta var mjög flott, hæfilega löng og skemmtileg ferð fyrir alla, og það voru allir rosalega glaðir. Það sem líka er, að það hefur ekki farið í svona skólaferð frá Framhaldsskólanum á Húsavík árum saman þannig að það var alveg kominn tími til,“ segir Valgerður.
Valgerður segir jafnframt að hópurinn sé nú þegar farinn að hlakka til næstu ævintýra og er viss um að þessi ferð veiti nemendum og starfsfólki FSH innblástur og drifkraft til að halda áfram að þróa og byggja upp skólasamfélagið á Húsavík.
Fyrirmyndarstofnun 2024
Þá kveðst Valgerður vera ákaflega stolt af skólanum og starfinu sem þar er unnið enda hafi skólinn nýverið hlotið verðlaun fyrir 4. sæti í samkeppni um stofnun ársins 2024 fyrir ríkisstofnanir með 5-39 starfsmenn. Alls eru 55 stofnanir sem taka þátt í þeim flokki. Framhaldsskólinn á Húsavík varð einnig í 4. sæti yfir allar ríkisstofnanir sem alls eru 140 talsins. Þeim árangri sé ekki náð nema með frábæru starfsfólki.
„Starfsfólk FSH er mjög samhent, hér ríkir góður starfsandi og yndislegir krakkar sem eru í skólanum. Það er ákaflega góður andi sem svífur yfir vötnum í skólanum okkar sem við getum öll verið stolt af og skiptir miklu máli fyrir samfélagið,“ segir Valgerður að lokum.