Lið MA komið í undanúrslit í Gettu betur
Lið Menntaskólans á Akureyri hefur tryggt sér þátttökurétt í undanúrslitum spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur. Þetta varð ljóst í kvöld þegar liðið bar sigurorð af liði Menntaskólans við Sund í fjórðu og síðustu viðureign 8-liða úrslitanna í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Lokatölur, 38-21 MA í vil. Sem fyrr skipa Árni Stefán Friðriksson, Kjartan Valur Birgisson og Sólveig Erla Baldvinsdóttir lið MA.
Þau Árni, Kjartan og Sólveig náðu strax góðri forystu í kvöld undir hvatningarorðum stuðningsfólks í sal sem fylgdi liðinu suður yfir heiðar. Eftir hraðaspurningar leiddi MA með 19 stigum gegn 13. Liðin fengu eitt stig hvort í myndbandsspurningu og því staðan 20-14 þegar kom að bjölluspurningum. Okkar fólk sló ekki slöku við og jók muninn jafnt og þétt. Að loknum bjölluspurningum leiddi MA með 34 stigum gegn 16 stigum MS og staðan því vænleg fyrir lokaátökin. Keppninni lauk með vísbendingaspurningum og þríþraut. Úrslit kvöldsins eins og áður sagði, 38 – 21 MA í vil og farseðillinn í undanúrslitin tryggður. Sannarlega frábær frammistaða hjá Árna, Kjartani og Sólveigu.
Auk MA eru Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Hamrahlíð komnir áfram í undanúrslit. Þau fara fram 6. og 13. mars. Dregið var í undanúrslit eftir að úrslit lágu fyrir í kvöld. Menntaskólinn á Akureyri mætir Fjölbrautaskólanum við Ármúla í fyrri undanúrslitaviðureigninni þann 6. mars næstkomandi.
Það er heimasíða Menntaskólans á Akureyri www.ma.is sem fyrst segir frá.