Lokaorðið - Það er fullt af fórnarlömbum á Íslandi – ekki þú vera þar

Heiðrun E Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Heiðrun E Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
  • Hættu þessu væli
  • Leggðu þig fram
  • Berðu virðingu fyrir fólki
  • Gerðu góðverk
  • Settu þér markmið
  • Þorgrímur Þráinsson, RUV, febrúar 2025

Ólíkt sumum þá var ég ánægð með þessi skilaboð Þorgríms og gat að einhverju marki tengt. Hann fékk á sig óvægna gagnrýni hjóna, sem eru menntuð sem kynjafræðingur og sálfræðingur.

Ég ber virðingu fyrir allri menntun. En ég ber ekki síður virðingu fyrir lífsreynslu og visku þeirra sem hafa unnið með börnum í áratugi. Hafa spjallað við þau um það sem brennur á þeim, þannig fylgst með þróuninni á síðustu árum. Það er óumdeilt að það hafa orðið miklar samfélagsbreytingar á skömmum tíma.

Uppeldi formæðra okkar

Við skulum muna að formæður okkar, sem komu iðulega mörgum börnum á legg, höfðu sjaldnast mikla menntun. Þeim tókst þó ágætlega til, oft við afar kröpp kjör. Þá var samfélagið vissulega með allt öðrum hætti. Í lífsins baráttu þá var ekki unnið með stór áföll sem dæmi foreldra- eða barnsmissi, en í dag erum við blessunarlega komin mun lengra. Ég er ekki að tala um slík stórfelld áföll, eða andleg veikindi sem augljóslega þarf að vinna úr og setja í forgang. Heldur almenn lífsins leiðindi og vandræði, sem sannarlega geta virst stórfelld þegar þú færð það í fangið, en þegar frá líður þá voru þau ekki svo mikilvæg.

Samspil menntunar og lífreynslu verður seint vanmetin.

Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir og elsku börnin okkar eru misjöfn eins og þau eru mörg. Við foreldrar þekkjum, að sum ráð sem duga á eitt barn duga ekki á annað, jafnvel alsystkini sem eru alin upp við sömu aðstæður.

Þroskaþjófar

Í dag búa börn við annan veruleika en við þegar við vorum að alast upp. Okkur foreldrum hættir til að leysa vandamál barna okkar áður en þau fá tækifæri til þess. Við skipuleggjum dagana fyrir þau, tökum ábyrgð á að láta þeim ekki leiðast. Þetta hefur leitt til þess að dagskrá barna sem og foreldra er of hlaðin viðburðum.

Með því sviptum við þau tækifærinu til að þroskast rólega og eflast við hverja raun. Með því að leysa lífsins vandamál sjálf byggja þau upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu.

Það hefur enginn lofað okkur að lífið verði alltaf auðvelt

Við getum ekki verndað börnin okkar fyrir áföllum. En við getum leyft þeim að finna út úr vandanum sjálf, fylgst með úr fjarlægð, gripið þau ef stefnir í óefni.

Æska okkar var örugglega ekki fullkomin, við erum öll með einhverjar klyfjar í farteskinu, eitthvað sem við hefðum viljað hafa með öðrum hætti. En hvað mig varðar fékk ég þó að kljást við mín mál sjálf, það efldi og þroskaði.

Besta umbun foreldra

Við getum brýnt fyrir börnum okkar, eins og Þorgrímur gerir, að vera ekki fórnarlömb, hætta óþarfa væli, taka ábyrgð, leggja sig fram. Í þessu samhengi er ég augljóslega að tala um daglegt amstur og lífsins leiðindi, en ekki stóráföll, eða andleg veikindi, þar sem augljóslega þarf að taka vel utan um einstaklinga.

En það skiptir ekki síður máli að vera góð manneskja, gera góðverk og bera virðingu fyrir öðrum. Er það ekki besta umbun okkar foreldra, þegar við áttum okkur á því að börnin okkar eru góðar manneskjur? Þá hefur okkur tekist vel upp, jafnvel þótt uppeldið hafi ekki verið fullkomið og án nokkurs vafa hefðum við getað gert eitthvað betur.

Áföll marka okkur, þroska okkur.

Áföll skilgreina okkur ekki, heldur það hvernig við vinnum úr þeim. Seigla og þrautsegja – að standa upp og halda áfram, sár og smá lemstruð. En alltaf reynslunni og þroskanum ríkari.

Hafi ég fallið í sömu gryfju og ofangreindur Þorgrímur og náð að móðga einhverja þá biðst ég nú þegar afsökunar á því.

 

Nýjast