Sameiningarkransinn
Mörgum þykja haustkransar ómissandi og leggja jafnvel mikið á sig til að finna fallegan efnivið og gera kransinn sem fallegastan. Með fallegum litríkum kransi við híbýli sín fagnar fólk nýrri árstíð. Starfsfólk í Kjarnaskógi er ekki á fyrsta ári þegar kemur að kransagerð, en þau settu saman þennan „krans“ í tilefni af því að tékkneskur keðjusagarlistamaður, Jíri Ciesler var í heimsókn í skóginum nýverið og skildi eftir sig listaverk.
Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga vildi með kransagerðinni búa til sameiningartákn fyrir Íslands og Tékkland. Bada vinnuskór voru á sínum tíma fluttir inn til Íslands frá Tékklandi í vöruskiptum fyrir Gefjunnarteppi og fleiri varning. Skórnir nutu vinsælda hjá bændum og skógræktarfólki í sinni tíð en afbragðsgóðir til útivinnu. Líkast til hefur Tékkum einnig fallið vel i geð að vefja sig inn í Gefjunnarteppin.