Samantekt og niðurstöður umsagnar

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Ferð án fyrirheits

Samþykkt var í bæjarráði í júlí 2019 að endurskoða gildandi deiliskipulag miðbæjarins frá árinu 2014.  Engin markmið voru tilgreind með þeirri endurskoðun nema það eitt að “skoða”  meðal annars  “hvort áfram eigi að miða við færslu Glerárgötu eða miða við núverandi legu hennar.” Annað var það ekki og greinilega lagt í ferð án fyrirheits.

Ekkert samráð við bæjarbúa

Starfshópur sem skipaður var í framhaldinu til að annast þessa endurskoðun vann að henni á annað ár en hafði ekkert samráð við bæjarbúa í vinnu sinni þrátt fyrir skýr tilmæli frá Skipulagsstofnun um að gera það í tilvikum eins og þessu. Hópurinn skilaði síðan áliti til bæjarstjórnar þar sem boðaðar voru víðtækar breytingar á gildandi miðbæjarskipulagi. Bæjarstjórn leitaði heldur ekki umsagna bæjarbúa á breytingatillögunum áður en hún gerði þær að sínum og kynnti í desember árið 2020. Almenningi var veittur frestur til fyrstu viðbragða til 6. janúar 2021.

Engin svör - engar upplýsingar 

Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir á opinberum vettvangi eða á skrifstofum bæjarins fékkst enginn rökstuðningur frá bæjaryfirvöldum fyrir viðamestu breytingunum sem lagðar voru til.  Ýmist var slíkum óskum mætt með grafarþögn eða vísað til þess að viðkomandi gæti lagt fram skriflegar athugasemdir við breytingarnar fyrir 21.03.21.

Vonlaust að taka upplýsta afstöðu 

Þessi tregða kom einna skýrast fram í því að ekki var viðlit að fá fram rökstuðning eða réttlætingu fyrir breytingu á Glerárgötunni fyrir vestan Hof. Þannig var  bókstaflega komið í veg fyrir að almenningur í bænum gæti mótað sér upplýsta afstöðu á þessum skipulagslega holskurði.

Leyndarhyggja leidd til öndvegis 

Af þessu má ljóst vera að bæjaryfirvöld geta ekki vænst þess að fá eðlileg og upplýst viðbrögð frá bæjarbúum við breytingatillögum sínum. Grunn-upplýsingar liggja ekki fyrir, engar umræður hafa farið fram með bæjarbúum og málið allt í gíslingu bæjaryfirvalda.  Leyndarhyggjan var þar með leidd til öndvegis.

Gjörbreytt vinnubrögð 

Þetta var mikil breyting miðað við verklagið lengst af í þessu langa skipu-lagsferli þegar bæjarbúar voru virkir í stefnumótun og ræddu skipulagsmál miðbæjarins af miklum ákafa og höfðu þá sannarlega raunveruleg áhrif á þróun þessa mikilvæga málaflokks. Við lok þess farsæla ferlis var komist að sam-eiginlegri niðurstöðu árið 2014 sem nú er gildandi deiliskipulag miðbæjarins. 

Bæjarbúar báðu ekki um þetta

En þá ákvað núverandi bæjarstjórn, frekar en að hefjast handa um að framkvæma fyrirliggjandi skipulag, að hræra í því án þess að nokkur ósk hafi komið fram um það frá bæjarbúum. Raunar með öllu hulið hver bað um þessa óláns endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins frá 2014.  

Taki aftur upp farsæl vinnubrögð 

Þegar svona er komið í þessu mikilvæga málefni sýnist sá kostur vænstur að fresta afgreiðslu þess í bæjarstjórn.  Bíða eftir að Covid-19 gangi yfir og taka málið eftir það upp á ný og þá í góðri samvinnu og sátt við bæjarbúa eins og gert var með góðum árangri við undirbúning og afgreiðslu gildandi miðbæjarskipulags.

Núverandi skipulag ljómandi gott 

Margt bendir til að sú vinna muni leiða í ljós að núgildandi skipulag miðbæjarins sé ljómandi gott enda er það afrakstur lýræðislegra starfshátta, farsællrar aðkomu hæfileikaríks fagfólks og málamiðlana ólíkra sjónarmiða. Eftir sem áður þarf auðvitað að útfæra ýmislegt í því þegar til framkvæmda kemur. Þá skiptir mestu að þróa og bæta það sem búið er að ákveða í stað þess að rífa niður og skemma. 

Töfin á reikning bæjarstjórnar 

Sökina á töfum við að byggja miðbæinn samkvæmt gildandi skipulagi  verður bæjarstjórnin hins vegar  að axla ein. Í þeim efnum er ekki við aðra að sakast. Nánar í Facebook hópnum "Miðbærinn okkar".

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

Nýjast