20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
SAKLEYSIÐ
Öll komum við saklaus inn í þennan heim en þegar fram líða stundir gera eða segja flestir menn eitthvað það sem tvímælis orkar. Yfirsjónir tilheyra mennskunni. Því til viðbótar þessu getur hvers sem er orðið fyrir því að annar maður ásakar hann um eitthvað sem er ámælisvert eða jafnvel refsivert án þess að hann hafi unnið til þess.
Saklaus uns sekt er sönnuð
Samhliða því að menn fóru að leggja áherslur á að búa til samfélög sem hefðu einkenni lýðræðislegs fyrirkomulags og réttarríkis, voru settar reglur um almenn mannréttindi. Meðal annars urðu menn sáttir um að sérhver maður sem ásakaður er um refsiverðan verknað skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð. Reglan hefur að mínu mati grundvallarþýðingu um stöðu sérhvers einstaklings í samfélaginu og er meðal annars ætlað að tryggja að menn þurfi ekki að þola afleiðingar brota sem þeir hafa ekki framið. Hún er ekki yfirlýsing um sakleysi heldur á í henni að felast trygging fyrir því að ásakaður maður þurfi ekki að þola afleiðingar ásakana fyrr en leitt hefur verið í ljós hvort hann hefur gerst sekur um það sem honum er gefið að sök.
Sakamálarannsóknir
Sakamálarannsóknir eiga ekki að vera opinberar. Því miður er orðið alltof algengt að upplýsingar úr rannsóknargögnum sakamála berast til fjölmiðla. Slíkt er til þess fallið að raska rétti sakborninga til að teljast saklausir uns sekt er sönnuð og stundum læðast að manni hugmyndir um að leka af þessu tagi sé beinlínis ætlað að móta viðhorf almennings til að auka líkur á sakfellingu þegar sönnunarstaða er í raun veik eða vonlaus.
Öllum er þungbært að vera ásakaðir um eitthvað sem þeir hafa ekki gert. Þess vegna er brýnt að lögregla hraði sakamálarannsóknum og ljúki þeim eins fljótt og verða má. Það er ekki ásættanlegt að saklaust fólk hafi réttarstöðu sakbornings jafnvel allt að fimmtung fullorðins- og sakhæfisára sinna og þurfi að sæta því að vera heilu og hálfu áratugina með réttarstöðu sakbornings. Einhvern tíma verður málum að linna.