Sækjum við að settu marki
mth@vikubladid.is
Konur voru óhræddar að bjóða fram starfskrafta sína og urðu þannig fyrirmyndir komandi kynslóða
Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) gaf nýverið út bók um sögu félagsins, frá stofnun þess árið 1930 til ársins 2020. Nafn bókarinnar, Sækjum við að settu marki, er lína úr ljóði eftir Heiðrek Guðmundsson frá Sandi en hann var félagsmaður FVSA og formaður á árunum 1946 til 1947. Útgáfu bókarinnar var fagnað í tengslum við aðalfund félagsins þar sem hún var kynnt.
„Þetta er merk saga, það hefur verið fróðlegt að fylgjast með vinnslu bókarinnar og í raun ótrúlegt hve framsýnir stofnendur félagsins voru á sínum tíma. Það vakti líka áhuga minn hve óhræddar konur innan félagsins voru að bjóða fram starfskrafta sína, en þær urðu þar af leiðandi fyrirmyndir komandi kynslóða. Bókin varpar ljósi á það mikla starf sem unnið er í félaginu okkar og þann árangur sem náðst hefur á 90 árum og óska ég félagsmönnum til hamingju með útgáfuna,“ segir Eiður Stefánsson formaður FVSA.
Aðdragandann að ritun bókarinnar má rekja til haustsins 2016 þegar stjórn félagsins samþykkti að skipa ritnefnd með það að markmiði að varðveita og rita sögu félagsins. Kristín Þorgilsdóttir, skrifstofustjóri FVSA, sat í ritnefndinni og kynnti bókina á aðalfundinum og hafði þar á orði: „Við áttuðum okkur kannski ekki alveg í upphafi á umfangi þessa verks, en hér er bókin komin. Ég vona að við getum öll haft gagn og gaman af lestri hennar“.
Með Kristínu í nefndinni voru þau Erla Halls, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir og Páll H. Jónsson. Jón Þ. Þór skrifaði bókina og Bragi V. Bergmann ritaði viðauka og sá um ritstjórn. Guðjón Heimir Sigurðsson sá um umbrot og myndvinnslu.
Órjúfandi samtakamáttur
Í bókinni er saga félagsins rakin allt frá stofnárinu 1930 til dagsins í dag. Sögð er saga stórfelldra þjóðfélagsbreytinga og lífskjarabyltingar. „Með órjúfandi samtakamætti náðu félagsmenn smám saman að tryggja sér öll þau réttindi sem okkur þykja svo sjálfsögð í dag,“ segir um bókina. Í henni er einnig lýst þeim gríðarlegu áhrifum sem tækniþróun hefur haft á störf verslunar- og skrifstofufólks og þeim miklu breytingum sem orðið hafa í verslun og viðskiptum á svæðinu.
Yfir 500 myndir
Bókin er ríkulega myndskreytt, yfir 500 myndir er þar að finna, m.a. myndir af öllum formönnum og stjórnum félagsins frá upphafi. Þar eru einnig myndir úr félagsstarfinu og þróun samfélagsins í þau 90 ár sem félagið hefur starfað. Bókin er öllum aðgengileg rafrænt og sem hljóðbók inni á vef félagsins. Áskrifendur á Storytel geta einnig hlustað á bókina en Guðni Kolbeinsson les og fór hljóðupptaka fram í Stúdíó Harmi.
/MÞÞ