6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Sæfari á leið í slipp í vor en óljóst er hvernig siglingum verður háttað til Grímseyjar á meðan
Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær var m.a. rætt um málefni Grímseyjar. Halla Björk Reynisdóttir fór meðal annars yfir stöðu mála og næstu skref við lok byggðaþróunarverkefnisins Glæðum Grímsey, skipulagsmál, orkumál, sorpmál og atvinnumál.
Þá vakti hún einnig athygli á samgöngumálum og lagði fram tillögu að bókun. Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun með 11 samhljóða atkvæðum: Nú liggur fyrir að Sæfari fari í slipp í 6-8 vikur í apríl og maí og íbúar hafa ekki fengið upplýsingar um hvað tekur við. Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar á Vegagerðina að leggja án tafar fram lausn á því hvernig skuli leysa ferjuna af hólmi þann tíma sem hún er í slipp og eyða þeirri óvissu sem upp er komin.
Þess má geta að um 60 manns eru með lögheimili í Grímsey auk árstíðabundinna íbúa sem dvelja tímabundið í eyjunni, til dæmis vinir, ættingjar, strandveiðimenn og aðrir sem vinna að ýmsum verkefnum í Grímsey um lengri eða skemmri tíma.
Nauðsynlegt er fyrir þetta fólk að tryggar og áreiðanlegar samgöngur séu til og frá eyjunni, auk þess sem flytja þarf þangað tæki, tól og varning.