Rjúpnaveiði að hefjast –sölubann enn í gildi

Rjúpnaveiðitímabilið í ár hefst á föstudag, 25. október. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á veiðistjórnunarkerfi fyrir rjúpu og því er mikilvægt að veiðimenn séu meðvitaðir um þær reglur sem gilda í ár segir í frétt á facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Veiðireglur: Veiði er heimil föstudaga til þriðjudaga (báðir dagar meðtaldir) innan veiðitímabils. Því er ekki heimilt að veiða á miðvikudögum og fimmtudögum. Veiðidagar eru heilir (það má veiða allan daginn). Veiðitímabilið fyrir Norðurland eystra spannar 20 daga, þ.e. frá 25. október til 19. nóvember. Enn er sölubann á rjúpu.
Svæðisskipt veiðitímabil: Ekki er lengur eitt veiðitímabil fyrir landið í heild heldur geta þau verið mislöng á milli landshluta. Svæðisskiptinguna (ásamt bannsvæðum rjúpnaveiða) má sjá í kortasjá Umhverfisstofnunar. Veiðidagafjöldi og veiðitímabil landshlutanna sjást á meðfylgjandi mynd.
„Veiðimenn, farið að reglum, hafið gilt veiðikort, lögleg vopn, verið vel og rétt búnir og farið að öllu með gát,“ segir lögreglan.