Rekstur upplýsingamiðstöðvar í Hofi næstu þrjú árin

Mynd frá undirritun samningsins: Katrín Káradóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Pétur Ólafsson og Ásthil…
Mynd frá undirritun samningsins: Katrín Káradóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Pétur Ólafsson og Ásthildur Sturludóttir Mynd akureyri.is

Í gær var staðfest samkomulag Akureyrarbæjar, Hafnarsamlags Norðurlands, Menningarfélagsins Akureyrar og verslunarinnar Kistu um rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Hofi næstu þrjú árin.

Tilgangur samningsins er að bjóða ferðamönnum á Akureyri upp á upplýsingaþjónustu í Menningarhúsinu Hofi á tímabilinu 1. apríl – 30. september á gildistíma samningsins.

Sérstakt markmið Hafnarsamlagsins er að farþegar skemmtiferðaskipa sem það kjósa eigi kost á upplýsingagjöf, sem veitt er augliti til auglitis, um Akureyri og nágrenni eftir að í land er komið.

Árlegt framlag Hafnarsamlagsins verður um 6 m.kr. en Akureyrarbæjar um 4 m.kr. og auk þess vinna við að útvega upplýsingar og hafa hönd í bagga með faglegum hluta starfseminnar og þjálfunar starfsfólks. Menningarfélagið annast starfsmannamál og daglegan rekstur og samstarf er við Kistu um afleysingar í afgreiðslu.

Upplýsingamiðstöðin hefur þegar hafið starfsemi sína og verður opin alla daga sem hér segir:

1. apríl - 31. maí: 09.00 - 14.00

1. júní - 31. ágúst: 08.00 - 16.00

1. september - 15. október: 09.00 - 14.00

 

akureyri.is sagði frá

Nýjast