Refirnir á Eyrinni
Ingólfur Sverrisson skrifar
Afkomendur fyrstu landnema Íslands höfðu búsetu uppi á þaki þriðju hæðar í næsta húsi við okkur í Ránargötunni þegar ykkar einlægur ólst þar upp. Þetta voru tveir til þrír refir í sérhönnuðu búri sem trúlega höfðu verið svældir út úr grenjum sínum af grenjaskyttu sem átti heima í þessu sama húsi. Þarna voru þeir geymdir og altalað um alla Ránargötuna að þeir væru notaðar sem tálbeitur við greni. Voru þeir þá látnir ýlfra þar ámátlega fyrir utan og tæla tófur út svo hægt væri að vinna á þeim. Refirnir á þakinu létu vel í sér heyra í ljósaskiptum með endalausu gaggi og ýlfri okkur nágrönnum til töluverðs ama. Sérstaklega var þetta pirrandi snemma á morgnana þegar flestir vildu kúra í kyrrð og ró. Móðir mín hafði meðaumkun með tófunum og sagði illa gert að halda þessum vesalingum þarna uppi og ekki til eftirbreytni. Eins og jafnan sá hún samt jákvæða hlið á þessu máli líkt og öðrum og sagði að ekki þyrftu þær að kvarta yfir útsýninu því þaðan sæist til allra átta. Rétt var það því tófurnar á þakinu höfðu stórkostlegt útsýni og sáu meðal annars austur yfir Ægisgötuna og túnin þar sem kýrnar hans Tryggva skósmiðs vöðluðu tungum sínum utanum grasið græna og innbyrtu með nautnasvip í augum. Þær vissu gjörla að lífið snýst fyrst og fremst um fæðuöflun og svo auðvitað að mjólka vel fyrir skógarafjölskylduna góðu, sem bjó í nágrenninu en rak skósmíðavinnustofu í Lundargötunni. Gólið frá skollunum á þakinu truflaði kýrnar ekki í sínu göfuga hlutverki.
Norðar á túninu voru hestar á víð og dreif. Flestir einbeittu sér að því að kroppa grasið en litu öðru hvoru upp með spekingssvip og horfðu til himins án sýnilegs tilgangs. Yngri hrossin tóku öðru hvoru spretti til að sýna merunum að þeir væru til alls vísir ef þeim væri treyst til stórræða. Þær horfðu hins vegar á ærslin með undarlegu samblandi kæruleysis og áhuga enda meðvitaðar um hlutverk sitt í viðhaldi íslenska hrossastofnsins. Þá kæmu þessir ólátabelgir við sögu og því eins gott að fara að öllu með gát og gera ekkert sem myndi bæla áhuga þeirra og getu.
Frá sjónarhóli refanna á þakinu blöstu við miklar timburborgir austan túnsins og hugleiddu þeir hvaða hlutverki þær gegndu. Forfeður þeirra og formæður hefðu kannast við þetta fyrirbæri allt frá landnámstíð. Þarna voru miklir fiskhjallar, fullir af spyrtum þorskum, tveir og tveir saman í löngum breiðum. Um aldaraðir var þetta ein helsta verkunar- og geymsluaðferð fiskjar og þannig tókst að koma mikilvægri afurð óskemmdri á erlenda markaði. Enn þann dag í dag var þessi aðferð brúkuð og refirnir klóruðu sér í feldinum og spurðu hvort ekki hafi verið fundin upp nútímalegri verkunaraðferð á öllum þessum tíma. Þeir voru upplýstir um að stóra húsið, sem verið var að byggja fyrir austan hjallana, væri einmitt frystihúsið sem myndi færa alla fiskvinnslu til nútímans. Þarna sáu melrakkarnir glitta í glæsta framtíð og velmegun bæjarbúa. Af því tilefni ráku þeir upp samræmt fagnaðargól sem hljómaði um alla norðanverða Oddeyrina.
Ingólfur Sverrisson