20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Raulað í blíðunni
Að mála er ekki það skemmtilegasta sem ég geri, en það fylgir víst venjubundnu viðhaldi á eignum að taka sér pensil í hönd með það í huga að betrumbæta umhverfið. Í blíðunni hér á dögunum tók ég á mig rögg og klifraði upp á þak í þeim tilgangi að mála það. Þar barðist ég ber á ofan við málningarvinnuna, hlustandi á Rolling Stones. Væntanlega ekki falleg sjón.
Þar sem ég stóð niðursokkinn við vinnu mína, raulandi með tónlistinni heyrði ég kallað frá næstu lóð, hvort ég væri ekki klár að koma í kirkjukórinn. Þá var mér hugsað til nágranna minna, sem eru heimsins bestu nágrannar, en þau hjónin hafa lengi tekið þátt í kórastarfi og sungið með kirkjukór Húsavíkurkirkju.
Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir fólki sem eftir langan vinnudag er tilbúið að gefa kost á sér í félagsstarf. Það á einnig við um þá sem hættir eru á vinnumarkaði en halda áfram sínu göfuga starfi með því að leggja samfélaginu lið með sjálfboðastarfi. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að menn geri slíkt. Samfélag sem býr svo vel að hafa aðgang að slíku fólki er ekki á flæðiskeri statt.
Ég svaraði kalli nágranna minna og sagðist sem satt er, vera laglaus með öllu. Ég væri ekki tækur í kirkjukór þrátt fyrir mikinn vilja. Aftur var kallað: „ það geta allir sungið eða lært að syngja“. Ég svaraði um hæl að ég væri undantekningin, ég gæti bara ekki haldið lagi. Við það fjaraði umræðan út yfir söng meistara Jagger.
Ég hélt áfram að mála þakið og upp í hugann kom atvik þegar ég stundaði búfræðinám við Hvanneyri hér á árum áður. Innan skólans var mikið lagt upp úr öflugu kórastarfi sem þekktur kórstjóri í Borgarfirðinum fór fyrir. Öllum nemendum var gert að fara í áheyrnarpróf. Ég neitaði og sagðist laglaus, en kórstjórinn sagðist ekki hlusta á svona rugl. Ég væri Þingeyingur og hann hefði aldrei á sinni löngu æfi kynnst Þingeyingi sem ekki gæti haldið lagi. Það var sem sé ekki í boði að sniðgagna áheyrnarprófið, en það tók ekki langan tíma. Fljótlega eftir að ég byrjaði að syngja, ef söng skyldi kalla, var ég góðfúslega beðinn um að hætta strax. Kórstjórinn stundi upp úr sér: „takk þú reyndir, en söngur liggur greinilega ekki fyrir þér þrátt fyrir að þú sért Þingeyingur. Þú ert undantekningin sem ég taldi að væri ekki til“.
Glaður hélt ég áfram að mála. Ég hafði ekki verið að skorast undan því að taka þátt í starfi kirkjukórsins. Laglaus maður með vottorð upp á að hann geti ekki sungið á ekki heima í kirkjukór þrátt fyrir mikinn vilja.
Aðalsteinn Árni Baldursson