20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Rauði krossinn við Eyjafjörð - Aldrei fleiri sjálfboðaliðar
Aldrei hafa fleiri sjálfboðaliðar starfað að verkefnum Rauða krossins við Eyjafjörð en á liðnu ári, alls 354.
„Það er afar ánægjulegt að fylgjast með sjálfboðaliðum fjölga í starfinu okkar því sjálfboðin þjónusta er eitt af grunngildum Rauða krossins. Í þeirri viðleitni að virkja fólk til að vera hreyfiafl jákvæðra breytinga í samfélagi sínu erum við stolt af því að geta boðið upp á svo fjölbreytt verkefni að flest ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir í ársskýrslu deildarinnar.
Öflugur sjálfboðaliði
Ein af þeim sjálfboðaliðum sem starfað hafa með Rauða krossinum við Eyjafjörð til langs tíma er Karen Malmquist. Hún hefur starfað bæði í neyðarvörnum, heimsóknarvinum og fataverkefnum ásamt því að gegna trúnaðarstörfum fyrir deildina. Síðastliðin átta ár hefur Karen setið í stjórn deildarinnar en það er hámarks tímalengd stjórnarsetu almenns stjórnarmanns. Á aðalfundi á dögunum kvaddi stjórn deildarinnar Karen og þakkaði henni samstarfið á vettvangi stjórnar. „Karen er afar öflugur sjálfboðaliði sem er ávallt tilbúin til rétta hjálparhönd og taka að sér fjölbreytt verkefni innan starfsins.“