Rauði krossinn á Akureyri í 100 ár

Frá vinstri: Róbert Theódórsson verkefnastjóri, Noelia Zapata verkefnafulltrúi í málefnum flóttafólk…
Frá vinstri: Róbert Theódórsson verkefnastjóri, Noelia Zapata verkefnafulltrúi í málefnum flóttafólks, Karen Malmquist sjálfboðaliði í fata- og neyðarvarnaverkefnum og Jóhann Hjaltadal Þorsteinsson sjálfboðaliði í neyðarvarnaverkefnum.

Miðvikudaginn 29. janúar 2025 eru 100 ár liðin frá stofnfundi Akureyrardeildar Rauða krossins á Íslandi. Deildin var fyrsta Rauða kross deildin sem stofnuð var á landinu og hefur frá upphafi verið ein sú öflugasta. Til marks um það höfðu 75 manns skráð sig í deildina áður en stofnfundurinn fór fram en yfir 100 manns gengu í hana á stofndeginum. Þetta kemur fram í tilkynningu Akureyrardeildar Rauða krossins.

Þess má geta að Akureyringarnir Steingrímur Matthíasson héraðslæknir á Akureyri og Þorbjörg Ásmundsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur áttu, ásamt Sveini Björnssyni, síðar forseta, frumkvæði að stofnun Rauða krossins á Íslandi. En þau Steingrímur og Þorbjörg höfðu hugsjón fyrir að efla hjúkrun og styðja við heilbrigðiskerfið í landinu. Að málaleitan Steingríms kom Frantz Svendsen, þáverandi formaður Rauða kross Danmerkur, til Íslands og kynnti starfsemi Rauða krossins bæði í Reykjavík og á Akureyri. Rauði kross Íslands var svo stofnaður í Reykjavík 10. desember 1924 og var fyrsti formaður félagsins Sveinn Björnsson.

Árið 2013 sameinuðust Akureyrar-, Dalvíkur, Ólafsfjarðar- og Siglufjarðardeildir og hlaut sameinuð deild heitið Eyjafjarðardeild.

Í dag starfa yfir 300 sjálfboðaliðar í 16 fjölbreyttum verkefnum deildarinnar og alltaf bætist í hópinn svo það er ljóst að í samfélaginu er mikill áhugi fyrir að láta gott af sér leiða. Vegna þess að deildin er svo fjölmenn er hægt að halda úti virku starfi í öllum þeim sjálfboðaliðaverkefnum sem Rauði krossinn býður upp á á landsvísu og því auðvelt fyrir hvern og einn að finna verkefni eftir áhuga og getu. "Það eru sjálfboðaliðarnir sem halda starfinu úti, enda er sjálfboðin þjónusta eitt af grunngildum okkar og það er sá mannauður sem gerir okkur kleift að halda úti svona öflugu starfi hér á svæðinu," segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri Eyjafjarðareildarinnar.

Á afmælisdaginn verða veisluhöld milli klukkan 15-18 í húsnæði Rauða krossins við Viðjulund 2 á Akureyri. „Húsið verður opið og öll eru velkomin að koma, samfagna og snæða afmælistertu með okkur en einnig verða tækifæri til að kynnast starfseminni okkar,“ segir Ingibjörg.

Sjálfboðaliðar og starfsfólk deildarinnar verða á Glerártorgi föstudag og laugardag til að bjóða fólki í afmælisveisluna ásamt því að kynna starfsemi og fjölbreytt verkefni deildarinnar. 

Nýjast