27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ragnheiður Jóna nýr sveitarstjóri í Þingeyjarsveit
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur samið við Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur um að taka að sér starf sveitarstjóra Þingeyjarsveitar út kjörtímabilið.
Ragnheiður Jóna starfaði sem sveitarstjóri Húnaþings vestra frá 2019-2022. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.
Ragnheiður Jóna starfaði í 10 ár hjá Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, sem menningarfulltrúi og verkefnastjóri uppbyggingarsjóðs.
Ragnheiður Jóna lauk MA-prófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og BA-prófi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. Auk þess hefur hún stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og lokið námslínunni Forysta til framþróunar - leið stjórnenda til aukins árangurs, við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Ragnheiður Jóna hlakkar til að takast á við krefjandi verkefni í nýju sveitarfélagi. „Kynnast íbúum og vinna með þeim að uppbyggingu nýs sveitarfélags sem hefur fjölmörg tækifæri til vaxtar,“ segir hún á vef sveitarfélagsins.
Ráðning Ragnheiðar Jónu verður staðfest á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 23. febrúar nk. og hefur hún störf 1. mars.