6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Ragnar Hólm fulltrúi Íslands á IWS vatnslitahátíðinni í Madríd
Akureyringurinn Ragnar Hólm Ragnarsson hefur verið valinn til að sýna á IWS vatnslitahátíðinni í Madríd sem hefst í lok júní. Ragnar er eini Norðurlandabúinn sem tekur þátt í samsýningu á annað hundrað listamanna víðsvegar að úr heiminum.
Hver listamaður sýnir eitt verk og verður sýningin opnuð 24. júní í Casa de Cantabria í miðborg Madrídar, rétt austan við Retiro-garðinn sem margir þekkja. Verkið sem Ragnar sendi inn og hlaut náð fyrir augum dómnefndar er af Snæfellsjökli og er 56x38 sm.
Í kjölfar opnunar sýningarinnar verður haldin heljarmikil vatnslitahátíð í höfuðborg Spánar þar sem tugir listamanna koma saman til að fagna listinni, mála saman utandyra og ferðast til bæja í nágrenni Madrídar, Toledo, Segovia og Ávila, til að finna falleg mótíf.
Ragnar Hólm er í Madríd yfir páskana. Vikublaðið sendi honum línu með tölvupósti, spurði hvort þetta væri ekki töluverð upphefð, og svar barst um hæl.
„Stundum er ég skammaður fyrir að vera heldur hógvær þegar kemur að listinni, en jú, ætli þetta sé ekki alveg spurningarinnar virði? Ég hef hlerað að heilum hellingi af myndum hafi verið hafnað, þannig að mín nær líklega máli.
Ég er fyrst og fremst rosalega ánægður með að hafa verið valinn í þetta kompaní með frábærum málurum hvaðanæva úr heiminum. Það er mikill heiður. Ekki síður er ég ánægður að fá að taka þátt í þessari vatnslitahátíð í Madríd en samband mitt við borgina er dálítið sérstakt. Ef ég tryði á fyrri líf þá væri mér nær að halda að öll mín fyrri líf hafi verið akkúrat hérna.“