20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Pólarhestar eru fyrirtæki ársins
Markaðsstofa Norðurlands veitir viðurkenninguna Fyrirtæki ársins til fyrirtækis sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi.
Íslenski hesturinn hefur spilað lykilhlutverk í þróun Íslands sem áfangastaðar í ferðaþjónustu, þar sem fyrirtækin sem bjóða upp á hestaferðir hafa búið til afþreyingu sem er bæði eftirsótt og einstök. Að þessu sinni er það Pólarhestar hlýtur viðurkenninguna fyrirtæki ársins.
Fyrirtækið er rótgróið og fagnar 40 ára afmæli á næsta ári. Þar er þó ekki slegið slöku við eftir allan þennan tíma, heldur hafa forsvarsmenn fyrirtækisins stöðugt sótt inn á markaði og aðlagað sig að aðstæðum hverju sinni. Fyrirtækið býður upp á hestaferðir allan ársins hring og leggur áherslu á persónuleg samskipti og góða tengingu við sína gesti til að tryggja að þeirra upplifun verði sem allra best. Þessi atriði skipta höfuðmáli þegar kemur að þróun áfangastaðarins Norðurlands og eiga sinn þátt í því að stuðla að minni árstíðarsveiflu, þegar boðið er upp á afþreyingu sem innlendar og erlendar ferðaskrifstofur geta boðið upp á í sínum vetrarferðum.
Stefán og Júlíana, eigendur fyrirtækisins, hafa átt í góðu samstarfi við önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu, kynnt áfangastaðinn Norðurland og verið duglegt við að benda ferðalöngum á það sem ekki má missa af í nágrenni þess. Slík vinnubrögð eru öllum til hagsbóta og til fyrirmyndar.