Perluðu fyrir börn í Úkraínu

Guðbjörg, Andrea, Anna Lísa, Sigrún Lillý, Aníta, Fanney og Arna Júlía, komu færandi hendi í dag. My…
Guðbjörg, Andrea, Anna Lísa, Sigrún Lillý, Aníta, Fanney og Arna Júlía, komu færandi hendi í dag. Mynd/epe

Nokkrar vinkonur úr 3. bekk Borgarhólsskóla komu færandi hendi í Naust seinni partinn í dag og færðu Rauða krossinum á Húsavík peningagjöf sem þær höfðu safnað. Þær óskuðu þess að peningarnir renni til barna frá Úkraínu.

Ástandið í Úkraínu hefur ekki farið fram hjá stelpunum og vildu þær láta gott af sér leiða. Þær eru allar skráðar í Frístund Borgarhólsskóla eftir hádegi á virkum dögum en þar er mjög vinsælt að perla. Það var þar sem stelpurnar fengu hugmyndina að styrkja börn í Úkraínu. Þær perluðu fjöldan allan af listaverkum þar sem úkraínski fáninn var í aðalhlutverki. Um síðustu helgi komu þær sér svo fyrir í andyri Krambúðarinnar og Netto á Húsavík og seldu listaverkin, bæði á laugardag og sunnudag.

Þær sögðu að flestir hafi tekið þeim mjög vel og fjölmargir styrktu söfnunina þeirra án þess að kaupa perlu-listaverk.

Alls söfnuðu stelpurnar rúmlega 40 þúsund krónum sem þær afhentu Rauða krossinum. Brynja Rún Benediktsdóttir og Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir tóku við gjöfinni og sögðust afar ánægðar með framtakið.

Nýjast