Óvenju margir nýnemar í VMA

Nýnemar og forráðamenn þeirra komu saman í gær í Gryfjunni og hittu umsjónarkennara. Hér fer Sigríðu…
Nýnemar og forráðamenn þeirra komu saman í gær í Gryfjunni og hittu umsjónarkennara. Hér fer Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari yfir nokkur hagnýt atriði við upphaf skólaárs. Í er fyrsti kennsludagur í VMA samkvæmt stundaskrá. Mynd ÓÞH

Kennsla hefst í dag samkvæmt stundaskrá í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Sem næst 1000 nemendur hefja nám við skólann á haustönn og hefur þeim fjölgað töluvert frá fyrra ári. Nýnemar í skólanum (f. 2008) eru á milli 250 og 260 og hafa ekki verið fleiri til fjölda ára. Til samanburðar hófu 215 nýnemar nám við VMA haustið 2023. Sigurður Hlynur Sigurðsson áfangastjóri segir að aldrei í 40 ára sögu skólans hafi verið jafn fjölbreytt námsframboð í skólanum og núna á haustönn.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari segir að árgangur nýnema (f. 2008) á þessu hausti, sem lauk 10. bekk grunnskóla sl. vor, sé í stærra lagi og það skýri að hluta mikinn fjölda nýnema í skólanum. En ekki síður endurspegli þessi fjöldi nýnema aukinn áhuga nemenda á verk- og starfsnámi.

Auk venjubundins náms í dagskóla á verknáms- og bóknámsbrautum halda áfram námshópar í pípulögnum (brautskráning í desember 2024), múrsmíði (brautskráning í maí 2025) og heilsunuddi (brautskráning vorið 2025) og þá mun áfram verða kennt í kvöldskóla í bæði húsasmíði (brautskráning vorið 2025) og rafvirkjun (brautskráning í desember 2024). Einnig heldur áfram í vetur nám matartækna, sem er blanda fjar- og helgarlotunáms (þriggja anna nám sem lýkur með brautskráningu vorið 2025). Núna á haustönn verður í fyrsta skipti boðið upp á kvöldskóla í listnámi, um er að ræða tveggja anna nám sem lýkur næsta vor. Tólf nemendur eru skráðir til náms og er unnt að bæta við nemendum.

Heimavist MA og VMA er fullbókuð í vetur. Í upphafi skólaárs verða þar 175 nemendur VMA og 145 nemendur MA.

40 ára afmæli VMA fagnað

Árið 2024 er afmælisár í VMA, á þessu ári eru 40 ár liðin frá því að skólinn hóf starfsemi. Þess verður minnst núna við upphafi skólaársins. Fimmtudaginn 29. ágúst nk. kl. 15-17 verður efnt til afmælishófs í Gryfjunni í VMA þar sem öllum sem áhuga hafa er boðið að koma í skólann og njóta þess sem verður boðið upp á – og um leið að kynna sér starfsemi skólans. Fyrrverandi nemendur og starfsmenn eru sérstaklega hvattir til þess að heimsækja skólann af þessu tilefni til þess að njóta samveru og rifja upp liðna tíð.
Síðdegis föstudaginn 30. ágúst kl. 16 ætla núverandi og fyrrverandi starfsmenn síðan að hittast og gera sér glaðan dag saman. Fyrrum starfsmönnum skólans er sérstaklega boðið til þessarar samveru.

Ingvar Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta skólahúsi VMA þann 29. ágúst 1981. Í þessu húsi hefur starfsemi málmiðnaðarbrautar skólans verið alla tíð. Eftir að húsið var tilbúið til notkunar hófst þar kennsla málmiðngreina og var hún til að byrja með undir hatti Iðnskólans á Akureyri. Samningur um VMA var gerður af menntamálráðuneytinu og Akureyrarbæ 19. ágúst 1981 en reglugerð um skólann, undirrituð af þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildi Helgadóttur, öðlaðist gildi 1. júní 1984. Það er því hinn formlegi stofndagur skólans. Haustið 1984 hófst síðan kennsla í VMA – fyrir réttum fjörutíu árum – og er tímamótanna minnst, sem fyrr segir, núna við upphaf skólaársins.

Nýjast