Óska eftir frambjóðendum sem eru tilbúnir í alvöru breytingar!

Reginn Unason formaður Félags íslenskra heilsunuddara.
Reginn Unason formaður Félags íslenskra heilsunuddara.

Ég óska eftir breytingum svo að ég og allir aðrir menntaðir Heilsunuddarar viti hvað við eigum að kjósa í komandi alþingiskosningum. 

Félag íslenskra  Heilsunuddara (FÍHN ) er stærsta fagfélag menntaðra nuddara á landinu. Við höfum undanfarinn ár lagt áherslu á okkar helsta baráttumál sem er að menntun okkar sé tekin alvarlega og metin að verðleikum með öryggi heilsunuddara og ekki síður nuddþega að leiðarljósi. 

 Núverandi löggjöf um nudd er ónýt!

Skýrasta dæmið er einfaldlega sú staðreynd að hver sem er má og getur starfað sem nuddari á landinu! Algjörlega óháð því hvort viðkomandi hafa nokkra menntun sem nuddari.

Hér á þessu landi eru viðurkenndar námsbrautir á framhaldsskólastigi til að læra heilsunudd og í lok útskriftar færðu leyfi til að kalla þig heilsunuddara.  Það nám leiðir hvorki af sér lögverndað starfsheiti né löggildingu. Það þýðir að hver sem er getur kallað sig heilsunuddara án þess að hafa lokið því námi. 

Til þess að fá leyfi til þess að opna og reka nuddstofu er ekki gerð krafa um að viðkomandi hafi  menntun sem nuddari eða ráði menntaða nuddara til starfa.

Þær kröfur sem gerðar eru um starfsleyfi fyrir nuddstofur eða skráningarskylda starfsemi eru almenn ákvæði um húsnæði, sóttvarnir, hreinlæti og þrif. Þó aðallega um að hafa þrifalegt, passa að nuddþegar hafi aðgengi að sér snyrtingu, það sé sér þvottavél og að nuddari hafi aðgengi að handlaug inni í hverju nuddrými eða nálægt hverju nuddrými.  Ekki er þar að finna eitt orð um menntunarkröfur vegna starfseminnar!  

Við hjá FÍHN  höfum á síðustu árum hitt og átt samræður við starfsmenn tveggja ráðuneyta, ráðuneytisstjóra, lögfræðinga á vegum ríkisins, þingmenn, aðstoðarmenn ráðherra, frambjóðendur og heilbrigðisráðherra og allstaðar fáum við sama svar; að núverandi ríkistjórn mun ekki gera neitt sem skerðir atvinnufrelsi Íslendinga og ef við setjum menntunarkröfur á starfsemi nuddara þá sé það skerðing á atvinnufrelsi. 

Það er undarlegt að ekki sé gerð krafa um að eingöngu fagmenntaðir megi og geti opnað nuddstofu.  Heldur sé áherslan á það að séu ákveðnir margir vaskar á staðnum og farið sé eftir lögum um tóbaksvarnir.

Fyrir hönd FÍHN þá óska ég eftir framboði/framboðum sem vill leggja áherslu á öryggi nuddara og nuddþega þessa lands fram yfir atvinnufrelsi fólks. 

Reginn Unason formaður Félags íslenskra heilsunuddara.

 

Nýjast