27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ósk Framkvæmdasýslunnar um að sleppa bílakjallara við heilsugæslustöð hafnað
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur hafnað ósk Framkvæmdasýslu-Ríkiseigna um að gera breytingu á lóðinni við Þingvallastræti 23, tjaldstæðisreitnum þar sem fyrirhugað er að reisa heilsugæslustöð fyrir suðurhluta bæjarins. Breytingin sem Framkvæmdasýslan fór fram á að gera var sleppa því að gera bílakjallara undir heilsugæslunni en fjölga þess í stað bílastæðum ofanjarðar.
Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs sem lýsti vonbrigðum með að ekki sé vilji til að hafa bílakjallara undir heilsugæslunni eins og miðað hefur verið við frá því skipulagsvinna á svæðinu hófst veturinn 2020 til 2021. Bílakjallari er að mati skipulagsráðs forsenda fyrir byggingu heilsugæslustöðvar á þessu svæði. Hvetur ráðið Framkvæmdasýsluna eindregið til að gera ráð fyrir þeim kostnaði sem felst í gerð bílakjallara í áformum sínum svo ekki verði tafir á framvindu verkefnisins enda ótækt að heilsugæslan búi lengur við núverandi húsnæðiskost.
Í erindi frá Framkvæmdasýslunni kemur fram að ástæða fyrir breytingunni sé að gert hafi verið ráð fyrir heildarkostnaði við byggingu ríflega. 1.700 fermetrar byggingar undir heilsugæsluna en ekki gert ráð fyrir kostnaði við bílakjallara. Í fjárframlögum sé gert ráð fyrir þeim kostnaði sem fylgir að bæta við bílakjallara. Lagði stofnunin til tvær tillögur að lausn, önnur sú að stækka lóð til suðurs og bæta við bílskýli og viðbótarbílastæðum, í allt 59 stæði á lóð. Hin tillaga gerir ráð fyrir að byggja hluta bílastæða undir þaki eða með skjólveggjum, þ.e. að gera opna bílageymslu og að bílastæði á lóð yrðu 57.