Öryrkjar og fatlað fólk - í landi tækifæranna
Einar Brynjólfsson skrifar:
- Við Píratar trúum því að allir eigi skilið sömu tækifæri - í landi tækifæranna. Við viljum aðlaga samfélagið að þörfum hvers og eins. Öryrkjar og fatlaðir einstaklingar eiga að fá að lifa án mismununar, fordóma, og hvers kyns misréttis.
- Við Píratar viljum að örorku- og endurhæfingarlífeyrir standi öllum til boða frá 16 ára aldri til eftirlaunaaldurs. Við viljum afnema búsetuskerðingar og skilyrði til uppbóta á lífeyri og vinna að því að fjarlægja skilyrði og skerðingar úr almannatryggingakerfinu.
- Við Píratar viljum breyta lögum um almannatryggingar svo að fjárhæð örorku- og endurhæfingarlífeyris fylgi almennri launaþróun og breytingar á lífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Við ætlum vinna upp kjaragliðnun lífeyris undanfarinna ára með reglubundnum hækkunum á fjárhæðum örorku- og endurhæfingarlífeyris á kjörtímabilinu.
- Við Píratar viljum hækka og lögfesta varanlegt frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja og auka þannig möguleika öryrkja til tekjuöflunar meðfram lífeyrisgreiðslum án víðtækra skerðinga. Píratar stefna að afnámi skerðinga vegna tekna úr lífeyrissjóðum.
- Við Píratar viljum einfalda umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingarlífeyri og gera það notendavænna. Við viljum að ríkið standi straum af öllum kostnaði við mat á örorku og endurhæfingu.
- Við Píratar ætlum að standa vörð um rétt fatlaðs fólks til að velja það búsetuform og þá búsetu sem hentar því.
- Við Píratar viljum hafa samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
Auðveldum öryrkjum og fötluðu fólki að dafna - í landi tækifæranna.
Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.