Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit
Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar stendur fyrir viðburði sem nefnist Opnar dyr á laugardag, 30.nóvember og nú í fimmta sinn. Markmiðið með þessum viðburði er að kynna þá starfsemi sem er í sveitinni og bjóða uppá tækifæri til að versla beint við framleiðendur og fyrirtæki.
Tólf ferðaþjónustuaðilar og tvö kvenfélög í Eyjafjarðarsveit opna dyrnar upp á gátt og bjóða gestum og gangandi í heimsókn milli klukkan 13 og 17 á laugardaginn. Boðið verður upp á matvöru beint frá bónda, gjafabréf í ýmsar upplifanir, handunnar gæða vörur og jólamarkað þar sem smáframleiðendur og bændur koma saman og selja vörur. Mikill metnaður og fjölbreytileiki er hjá þátttakendum í ár. Allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi og tilvalið að nýta tækifærið og kaupa vörur beint úr héraði til að setja í jólapakkann.
Þátttakendur á Opnum dyrum eru: Utrasmiðjan í Ytra-Gili, Hælið, Beate í Kristnesi, Íslandsbærinn, Kvenfélagið Iðunn verður í Laugarborg, Dyngjan listhús, Brúnir/Brunirhorse en þar verður einnig Ívar Ragnarsson með rennismíði, Vökuland Vellíðunarsetur, Ásar guesthouse og þar verður Kvenfélagið Aldan, og Skógarböðin.
Þá verður fjölskylduvænn jólamarkaður í Holtseli sem hefur verið vel sóttur síðustu ár. Þar verða Kvenfélagið Aldan og Heiðuljós með sölubása en ásamt þeim eru fleiri aðilar sem bjóða upp á nautakjöt, heimagerðan ís, silung, sperðla, lambakjöt, kerti, sápur, hnetusteik, lambagærur, jólakort, jólamerkimiða og frábær handverk. Jólasveinn kemur í heimsókn.