Opið hús í tilefni af 40 ára afmæli VMA

VMA - Opið hús í tilefni af 40 ára afmæli skólans
VMA - Opið hús í tilefni af 40 ára afmæli skólans

Um þessar mundir fagnar Verkmenntaskólinn á Akureyri 40 ára afmæli sínu og af því tilefni verður í dag, fimmtudaginn 29. ágúst, efnt til opins húss og afmælishófs í skólanum þar sem öllum er boðið að koma og njóta þess sem verður boðið upp á og um leið að kynna sér starfsemi skólans.

Verkmenntaskólinn varð til við samruna þriggja skóla, þ.e. framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans á Akureyri, Iðnskólans á Akureyri og Hússtjórnarskólans á Akureyri. Fyrsta skóflustunga að fyrsta skólahúsinu á Eyrarlandsholti var tekin fyrir nákvæmlega 43 árum, 29. ágúst 1981. Húsið var síðan vígt 21. janúar 1983 og í því var kennd málmsmíði í hálft annað skólaár, undir formerkjum Iðnskólans á Akureyri. Formlegur stofndagur VMA var 1. júní 1984 en fyrsta skólasetningin var þremur mánuðum síðar, 1. september 1984.

Nemendafjöldi VMA var strax á fyrstu starfsárunum langt umfram allar áætlanir og jafnan hafa nemendur í dagskóla verið um og yfir eitt þúsund. Nú stunda um eitt þúsund nemendur nám í dagskóla, auk fjarnáms og kvöld- og helgarnámskeiða. Námsframboð hefur aldrei verið jafn mikið í fjörutíu ára sögu skólans og einmitt núna á haustönn 2024.

Á fjörutíu árum hafa þrír verið skipaðir skólameistarar við VMA, Bernharð Haraldsson, Hjalti Jón Sveinsson og núverandi skólameistari Sigríður Huld Jónsdóttir. Aðrir þrír hafa gegnt stöðu skólameistara tímabundið í náms- og veikindaleyfum, Baldvin Bjarnason, Haukur Jónsson og Benedikt Barðason.

Afmælishóf

Opna húsið og afmælishófið verður í Gryfjunni í VMA í dag kl. 15-17. Ávörp flytja Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Ragnhildur Bolladóttir teymisstjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, Guðjón Hreinn Hauksson formaður Félags framhaldsskólakennara og stúdent frá VMA 1991, Jasmín Arnarsdóttir nemandi og kynningarstjóri í stjórn Þórdunu nemendafélags VMA og Hálfdán Örnólfsson kennari til fjörutíu ára og fyrrum  aðstoðarskólameistari.
Tónlistarflutningur verður í höndum Hafdísar Ingu Kristjánsdóttur sem
útskrifaðist frá VMA í maí 2023 og var fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2021. Að lokinni formlegri dagskrá verður gestum boðið upp á afmælisköku í tilefni dagsins.

 


Athugasemdir

Nýjast