Opið bréf til sveitarstjórnar Norðurþings vegna lokunar sundlaugarinnar í Lundi

Rúnar Tryggvason
Rúnar Tryggvason

Það er leitt að þurfa að gagnrýna vini sína en nú get ég ekki orða bundist.

Á fundi byggðaráðs Norðurþings sem haldinn var 23.maí sl. var samþykkt að loka sundlauginni í Lundi þar sem byggðaráð tekur undir bókun skipulags- og framkvæmdaráðs: “Byggðarráð tekur undir bókun skipulags- og framkvæmdaráðs að ekki sé forsvaranlegt að ráðast í frekara viðhald að svo stöddu“
Byggðarráð treystir sé ekki í að fara í frekara viðhald en mér vitanlega hefur ekki nein úttekt á ástandi laugarinnar farið fram. Ýmist er bent á lélegt burðarvirki, erfitt að fá varahluti og svo það að ekki fáist starfsfólk. Varðandi burðarvirkið, er það eflaust ekki eins og það var þegar laugin var byggð en óhugsandi er að það sé talið hættulegt þar sem nemendum Öxarfjarðarskóla var kennt í lauginni í vor. Varðandi varahluti, hefur enginn getað upplýst hvaða varahluti er erfitt að fá, enda var búnaðurinn endurnýjaður árið 2003 þannig að ekki er um gamlan búnað að ræða.

Eftir því sem að núverandi umsjónarmaður sundlaugarinnar segir – og síðasti rekstraraðili einnig – er ekkert í búnaði sundlaugarinnar sem er ónothæft eða í lélegu standi. Sundlaugin var rekin síðasta sumar í 45 daga án þess að nokkuð bilaði eða hnökrar væru í kerfinu. Þrátt fyrir það hefur enginn úr byggðarráði eða skipulags-og framkvæmdaráði séð ástæðu til að heyra í þessum aðilum, hvað þá að mæta á staðinn til að fá upplýsingar hjá þeim sem best þekkja. Varðandi það að ekki fáist starfsfólk, þá var ekki einu sinni reynt að auglýsa eftir fólki, enda hefur þessi ákvörðun sennilega verið tekin löngu áður en hún var gerð opinber.

Einu upplýsingarnar sem hafa fengist varðandi ástand laugarinnar er að klórbúnaður sé ekki viðunandi og staðsetning tækja ekki ásættanleg. Það er búið að liggja fyrir í áratugi og meðal annars komið í veg fyrir á nýtingu á Gamla Lundi sem er svo efni í aðra grein. Maður skyldi ætla að þetta væri auðleysanlegt ef minnsti áhugi væri fyrir hendi.

Allt í kringum þessi sundlaugarmál fær fólk því miður til að upplifa algjört áhuga- og metnaðarleysi ráðamanna á svæðinu austan Tjörness.
Hvers eigum við að gjalda sem erum að reyna að byggja upp einhverja ferðaþjónustu á svæðinu þegar þeir innviðir sem eru fyrir hendi fást ekki notaðir sbr nýjan Dettifossveg yfir veturinn og sundlaugina í Lundi á sumrin? Við erum í héraði sem státar af þjóðgarði og einni helstu náttúruperlu landsins, vinsælli göngu- og hlaupaleið niður með Jökulsánni og Þingeyjarsýslur eru rómaðar af hestafólki fyrir reiðleiðir og útreiðarsvæði.

Það er talið í þúsundum fólkið sem kemur til að njóta kosta svæðisins og nú getum við ekki einu sinni boðið gestum okkar í sturtu eða þægilega busllaug í sumar af því er virðist vegna þess að sveitarfélagið treystir sér ekki til að auglýsa eftir starfsfólki.

Hafið skömm fyrir!

Rúnar Tryggvason Hóli

 


Athugasemdir

Nýjast