Ólöf Rut hefur náð 100 ferða markinu Frábært að hafa náð markmiði sínu

Ólöf Rut Ómarsdóttir hefur gengið 100 ferðir á Fálkafell. Því markmið náði hún um s.l. helgi en geri…
Ólöf Rut Ómarsdóttir hefur gengið 100 ferðir á Fálkafell. Því markmið náði hún um s.l. helgi en gerir ráð fyrir að láta ekki alveg staðar numið Myndir aðsendar

„Þetta hefur verið virkilega gaman og gefandi. Ég hef kynnst fullt af fólki í þessum ferðum og það er bara skemmtilegt,“ segir Ólöf Rut Ómarsdóttir sem náði þeim áfanga um liðna helgi að fara ferð númer 100 á Fálkafell. „Ég er mjög ánægð með að hafa náð markmiði mínu, það er talsvert langt síðan ég hef sett mér markmið af þessu tagi og náð því þannig að þetta er mikil hamingja.“

Ólöf Rut fór sína fyrstu Fálkafellsferð í átakinu 21. maí í vor og hefur því náð 100 ferðum á tæpum fjórum mánuðum. „Ég var á næturvakt í vinnunni og var að vafra um þegar ég rakst á umfjöllun um þessar ferðir á Fálkafell og fannst þetta áhugavert,“ segir hún og hófst fljótlega handa við Fálkafellsgöngur sem hljómuðu vel við áform hennar um að stunda útihreyfingu.

 „Ég hugsa að ég hætti ekki, þetta er svo gaman,“ bætir hún við og nefnir að einstaka dag hafi hún farið tvær ferðir.

Ólöf Rut hefur hreppt margs konar veður á ferðum sínum, snjókomu i byrjun júní, úrhellisrigningu, hávaðarok og glampandi sól og blíðu. „Veðrið var mjög fjölbreytt og bara skemmtilegt að hafa það þannig,“ segir hún.

Með spilastokkinn við höndina

Fyrstu ferðina fór hún með vinkonu sem varð fyrir því að meiðast á ökkla og komst því ekki með, örfáar ferðir hafa ættingjar verið með í för en oftast oftast er Ólöf Rut ein á ferð. Hún tekur alltaf mynd af sér með skálann í baksýn í hverri ferð og fyrstu tíu ferðirnar sýndi hún með því að rétta upp fingur. Í elleftu ferðinni tók hún með sér gosa úr spilastokk og hefur haldið sig við spilin síðan. „Ég sleppi aldrei mynd og vona að þessar myndir hafi ekki farið í taugarnar á fólki. Það var mikilvægt fyrir mig til að ná markmiðinu að gera eitthvað í þessa veru til að hvetja sjálfa mig áfram. Það hvatti mig áfram að sýna myndirnar og að ég væri ekki af baki dottinn.“

Keppti við sjálfa sig

„Þolið hefur líka aukist til muna, fyrst fór ég hægt yfir og tók jafnvel smá hvíld inn á milli en nú fer ég vandræðalaust upp og geng rösklega. Ég var farin að keppa við sjálf mig, setti klukkuna í gang fyrir ferð og sá að ég náði að bæta tímann þegar á leið.“

Nú er Ólöf Rut farin að horfa til fjalla í nágrenni bæjarins, Súlur sem dæmi og eins langar hana að ganga að Skólavörðu. „Ég vona að ég láti verða af því einn daginn,“ segir hún og kveðst örugglega munu bæta við fleiri ferðum á Fálkafell líka þó markmiðinu sé náð.

 Pabbi Ólafar, Ómar Ólafsson fór með í ferð númer 100.

 

Nýjast