Öll þessi augnablik Örnu

Arna G. Valsdóttir við eitt verkanna á sýningunni.
Arna G. Valsdóttir við eitt verkanna á sýningunni.

Arna G. Valsdóttir, kennari við listnáms- og hönnunarbraut VMA og myndlistarmaður, opnaði sl. fimmtudag sýningu á verkum sínum í bókasafni Háskólans á Akureyri. Sýninguna kallar Arna Öll þessi augnablik og sýnir hún kyrrmyndir eða augnablik úr myndbandsverkum sem hún hefur unnið og er að vinna að. Í sýningarskrá segir að kyrrur hafi oft verið hluti myndbandssýninga Örnu en séu nú settar í aðalhlutverk í fyrsta skipti.

Arna hefur lengi unnið að myndlist af ýmsum toga og sýnd list sína á fjölmörgum sýningum hér á landi og í útlöndum. Ekki síst hefur hún unnið mikið með innsetningarverk þar sem samspil hreyfimyndar og hljóðs er í forgrunni.

Í sýningarskrá kemur eftirfarandi fram um verkin á sýningunni:

Þráin og Nágrannaspjall eru tvö myndbandsverk frá 2007 þar sem Hraundrangi í Öxnadal er í aðalhlutverki. Arna er að hluta til alin upp á Hólum í Öxnadal sem er beint á móti Hraundröngunum. Þráin sýnir sjónarhorn Örnu á drangann þar sem nóttin leggst yfir. Nágrannaspjall sýnir sjónarhorn drangans sem speglar sig í gluggunum á Hólum. Hraunfélagið á eintak af myndbandsverkunum.

Uppskera er vídeóskissa, tekin upp í Einkasafninu árið 2019. Verkið er í vinnslu.

Gluggað í Dýrafjörð er vídeóskissa, tekin upp í glerverki Örnu á sýningu List í Alviðru árið 2021. Verkið er í vinnslu.

Staðreynd 4 – frá rótum er verk unnið og sýnt í Flóru í Listagilinu árið 2011 og sýnt á einkasýningu Örnu í Listasafninu á Akureyri 2014. Myndirnar eru úr hluta verksins sem tekið var upp í gamla bænum í Laufási.

Sýninguna hefur Arna unnið í samvinnu við Prentsmiðjuna.is og er hún sölusýning. Hér eru myndir af nokkrum verkanna á sýningunni. Opið er á opnunartíma bókasafnsins á mánu-, miðviku- og föstudögum kl. 8-16 og þriðju- og fimmtudaga kl. 8-18. Lokað er um helgar.

Nánar um list Örnu G. Valsdóttur á heimasíðu hennar. Og hér má sjá nokkur af þeim fjölmörgu myndböndum sem Arna hefur unnið í gegnum tíðina.

Heimasíða VMA segir frá þessu .

 

Nýjast