Ofnréttur, salat og berjabaka .
Ofnréttur, salat og berjabaka .
Kristín Sóley Sigursveinsdóttir verkefnisstjóri móttöku flóttafólks á Akureyri sér um matarkrók vikunnar.
Salat með perum og ristaðri hráskinku:
100 g hráskinka
3 perur
200 g blandað salat
Salatsósa:
4 tsk. Eplaedik
6 tsk. Hlynsíróp
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Aðferð:
Hráskinkan er ristuð/steikt á báðum hliðum á þurri pönnu við miðlungshita. Hún á að verða stökk en ekki brennd. Gott er að byrja á skinkunni svo hún nái að kólna aðeins áður en henni er blandað í salatið. Næst er upplagt að blanda salatsósuna og hafa tilbúna í sæmilega stórri skál. Perurnar eru flysjaðar, kjarnhreinsaðar og skornar í þunna báta eða bita eftir smekk. Perubitunum er svo skellt í skálina með salatsósunni og velt þar vel og vandlega. Skinkan er skorin eða brotin í minni bita. Loks er salati, perum og skinku blandað saman.
Salatið er upplagt sem léttur forréttur eða sem meðlæti til dæmis með kjúklingi eða kalkúna. Til tilbreytingar er t.d. hægt að strá granateplafræjum yfir í lokin eða þunnum sneiðum af parmesanosti.
Ofnréttur með eggaldinum og spínati:
1200 g eggaldin
ólífuolía
1 poki frosið spínat (ca. 450 g), þítt og vökvinn kreistur vel frá
2 saxaðir laukar
2 söxuð hvítlauksrif
2 dósir niðursoðnir tómatar
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Fersk basilika eftir smekk
250 g mozzarella og/eða cheddarostur,
rifinn 50 g parmesanostur,
Aðferð:
rifinn Eggaldin eru skoluð, snyrt og skorin langsum í u.þ.b. sentimetra þykkar sneiðar. Sneiðarnar eru penslaðar létt báðum megin með olíu. Það þarf engin ósköp af olíu í þetta, eggaldin sýgur vel í sig svo þess vegna þarf að gæta sín aðeins að setja ekki of mikið af olíunni. Sneiðarnar eru settar á pappírsklæddar bökunarplötur og bakaðar ofarlega í ofni við 200°C í 10 mínútur á hvorri hlið. Á meðan eggaldinið er að bakast er laukur og hvítlaukur látinn mýkjast í svolítilli olíu. Tómötunum er síðan bætt í og kryddað með salti og pipar. Gott að leyfa sósunni að malla allavega í 30 mínútur. Í blálokin er saxaðri basilíku bætt í. Rétturinn er svo settur saman í lögum í ofnfast fat, svipað eins og gert er með lasagna. Fyrst er svolítil tómatsósa sett á botninn, síðan lag af eggaldinsneiðum og svo slatti af mozzarella/cheddar. Öllu spínatinu er nú dreift yfir ostinn. Síðan er aftur sett tómatsósa, eggaldin og ostur og endurtekið þar til allt er komið í fatið. Í lokin er parmesanostinum stráð yfir. Bakað við 200°C í 30 mínútur eða þar til osturinn er farinn að taka lit. Borið fram með góðu grænu salati.
Í lokin er hér uppskrift að berjaböku sem er bæði einföld og fljótleg. Í hana hef ég prófað að nota ýmis konar ber en hindberjaútgáfan hefur reynst vinsælust.
Berjabaka :
2,5 dl spelt/hveiti
1,5 dl hrásykur/sykur
4,5 dl grófvölsuð hafragrjón
¾ tsk. matarsódi
200 g bráðið smjör
500 g ber(fersk eða frosin)
1,5 dl gróft kókosmjöl eða kókosflögur
100 g möndluflögur
Aðferð:
Spelti, hrásykri, haframjöli og matarsóda er blandað saman í skál. Smjörinu er svo hellt út í og hrært vel saman með sleif. Deigið á að vera frekar sundurlaust. Um það bil 2/3 af deiginu er sett í smurt eldfast form og dreift úr því, óþarft að þjappa. Berin sett yfir. Ekki er nauðsynlegt að láta frosin ber þiðna áður en þau eru sett á bökuna. Kókosmjöli og möndluflögum er hrært saman við afganginn af deiginu og dreift yfir berin. Bakað í miðjum ofni við 180°C í u.þ.b. 30 mínútur. Gott er að bera bökuna fram volga. Bökuna er hægt að frysta (gjarnan óbakaða).
Með þessu ber ég yfirleitt fram rjómaskyrsblöndu sem er útbúin svona: 2½-3½ dl rjómi er þeyttur létt og síðan er innihaldi úr stórri dós af vanilluskyri (frá KEA) hrært saman við.