20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fjórtándi jólasveinninn hjá Freyvangsleikhúsinu
Fjórtándi jólasveinninn er frumsamið jólaverk eftir Ásgeir Ólafsson Lie sem segir sögu af hinum hefðbundnu jólasveinunum 13 sem og Grýlu, Leppalúða og jólakettinum. Nema í þessu leikverki eru jólasveinarnir ekki bara þrettán heldur er þarna sá fjórtándi sem enginn átti von á. Leikritið verður frumsýnt hjá Freyvangsleikhúsinu á laugardag, 23. nóvember og verður sýnt á aðventunni.
Þetta jólaævintýri er hugljúf jólasaga sem segir söguna af barni sem kemur óvænt í heiminn og var í raun ekki gert ráð fyrir. Ólátabelgur er frábrugðin öðrum í fjölskyldunni og hefur hvorki hlutverk né tilgang innan fjölskyldunnar. Það að vera öðruvísi en allir í kringum sig og falla ekki inn í hópinn getur verið erfitt, því þarf Ólátabelgur að hafa fyrir því að finna sinn stað innan fjölskyldunnar.
Tónlistin létt og skemmtileg og er samin af Eiríki Bóassyni sérstaklega fyrir verkið. Söngtextarnir mjög frumlegir og eru samdir af Helga Þórssyni. Leikstjóri er Jóhanna S. Ingólfsdóttir
Tildrögin af verkinu eru sú að Ásgeir skrifaði bókina Fjórtándi jólasveinninn sem kom út fyrir jólin 2018 og gerði svo drög af handriti sem hann treysti Freyvangsleikhúsinu fyrir að setja á svið í samvinnu við Jóhönnu. Jóhanna fékk svo Eirík og Helga til liðs við sig til að setja tónlist í verkið, 19 leikara og 4 manna hljómsveit. Svo ekki sé talið upp allt fólkið á bakvið tjöldin, sem er ótalmargt.
Það verður mikið líf og fjör í Freyvangi á aðventunni.