Nýtt húsnæði auðveldar aðgengið
mth@vikubladid.is
Efling sjúkraþjálfun hefur keypt um 300 fermetra húsnæði í Kaupangi við Mýrarveg á Akureyri. Húsnæðið er á annarri hæð og var áður í eigu Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þar verður komið upp góðri aðstöðu til sjúkraþjálfunar, fram undan eru breytingar og stefnt að því að opna í nýja húsnæðinu á komandi hausti.
Ásta Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri Eflingar sjúkraþjálfunar segir að húsnæðið hafi nýlega verið afhent og hafist verði handa við breytingar eftir páskana. Meðal annars þarf að setja upp lyftu til að auðvelda aðgengi. „Við verðum áfram í Krónunni í miðbænum, þar sem við höfum verið um árabil, en húsnæðið í Kaupangi kemur til viðbótar þannig að við erum að auka við okkar starfsemi,“ segir hún og er gert ráð fyrir að fleira starfsfólk verið ráðið til félagsins. Þar starfa nú 17 sjúkraþjálfarar í 15 stöðugildum.
Fyrir eldra fólk og þá sem erfitt eiga með gang
Ásta segir að ákveðið hafi verið að kaupa þetta húsnæði m.a. til að auðvelda aðgang eldra fólks og þeirra sem ekki eigi auðvelt með gang af ýmsum ástæðum, að sækja þjónustu Eflingar. Hugmyndin er að koma upp góðri aðstöðu fyrir eldra fólk þar sem áhersla verður lögð á styrktar-, þol- og jafnvægisþjálfun ásamt liðleikaþjálfun en í hóp sjúkraþjálfara Eflingar er fólk sem hefur mikla reynslu af þjálfun aldraðra. Stefnt er að því að bjóða upp á meiri fjölbreytni í hópþjálfun bæði fyrir eldra fólk og aðra. „Margir sem til okkar leita í sjúkraþjálfun eru ekki góðir til gangs og því færum við starfsemina að hluta til á annan stað þar sem bílastæðamálin eiga ekki að vera til vandræða.“ segir hún. „Við munum beina þeim hópum sem þurfa gott aðgengi og bílstæði í námunda við sjúkraþjálfunina í Kaupang, en taka yngra fólk og íþróttafólk á starfstöðina í Krónunni en að sjálfsögðu hefur fólk líka val. Með þessu fyrirkomulagi náum við að þjónusta meiri breidd og bæta okkar þjónustu.“
Alltaf biðlisti
Ásta segir að ævinlega sé biðlisti eftir því að komast í sjúkraþjálfun og greinilegt að stór hópur fólks þurfi á þessari þjónustu að halda. Hjá Eflingu er boðið upp á alla almenna sjúkraþjálfun, auk þess sem margir þjálfarar hafi sérhæft sig enn meira, t.d. í íþróttasjúkraþjálfun, meðhöndlun á grindarbotni, í þjálfun fólks með slitgigt, við háls og axlarvandamálum sem dæmi. Mjög algengt er að fólk með ýmis stoðkerfisvandamál leiti sér hjálpar. Einstaklingar sem eru að ná sér eftir beinbrot, liðskiptaaðgerðir eða aðrar aðgerðir eru stór hópur viðskiptavina Eflingar.