Nýr þriggja deilda leikskóli í burðarliðnum
„Það hefur verið tekin ákvörðun um að reisa þriggja deilda leikskóla og þar verður pláss fyrir 48 börn, 16 á hverri deild,“ segir Heimir Örn Árnason formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs á Akureyri. Útlit er fyrir að vanti um 40 leikskólapláss í bænum næsta haust.
Heimir segir að enn sé verið að vinna að þessari hugmynd, ákvörðun hafi verið tekin um að koma þessum þremur nýju deildum í gagnið en enn eigi eftir að fastsetja hvar leikskólinn verði staðsettur í bænum. „Við erum að fara yfir þetta og ákvörðun um staðsetningu liggur fyrir fljótlega sem og hvernig hús verður reist, við sjáum fram á að allt liggi fyrir í lok þessa mánaðar,“ segir hann
Þá er einnig verið að skoða fyrir hvaða aldur leikskólinn verði, þ.e. hvort tekin verði inn börn frá 12 mánaða eða eldri.
Heimgreiðslur til að brúa bil
Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt reglur um heimgreiðslur fyrir foreldra sem ætlað er að brúa bilið frá fæðingarorlofi og þar til barn er innritað hjá dagforeldri eða býðst leikskólapláss. Það er gert til að koma til móts við þá foreldra/forráðamenn eldri barna sem bíða eftir leikskólaplássi.
Heimir segir að um sé að ræða tilraunaverkefni og fyrsta sinn sem slíka greiðslur séu í boði á Akureyri, en þær hafi tíðkast hjá nokkrum sveitarfélögum. Verkefni hefst 1. september næstkomandi og því lýkur í lok júlí á næsta ári. Upphæð heimgreiðslunnar er 105 þúsund krónur