Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Nýir aðflugsferlar í notkun á Akureyrarflugvelli næsta vor
Stefnt er að gildistöku nýrra aðflugsferla á Akureyrarflugvelli um miðjan maí 2025 eða í síðasta lagi þá um sumarið. Það sem hugsanlega getur haft áhrif á endanlega dagsetningu gildistöku er m.a. flugprófanir sem að hluta til gætu þurft að fara fram í hermi. Nýir brottflugsferlar verða innleiddir í febrúar næstkomandi. Verkefni við að- og brottflugsferla á Akureyrarflugvelli eru langt komnir.
Isavia Innanlandsflugvellir héldu nýverið fund með bæjarfulltrúum á Akureyri, þingmönnum og fulltrúum flugsamfélagsins en tilgangur hans var að bregðast við bókun bæjarráðs Akureyrar vegna aðflugsverkefnis við Akureyrarflugvöll. Bæjarráð átaldi í þeirri bókun seinagang við uppsetningu aðflugsferlanna. Verkefni við aðflugsferla við Akyreyrarflugvöll hófst árið 2022 og hefur því staðið í rúm tvö ár. Sigrún Björk Jakobsdóttir framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla segir það ekki óeðlilega langan tíma, verkefnið sé flókið.
Verkefnið langt komið
Ramon Sole Franco aðalflughönnuður kynnti stöðu verkefnisins varðandi gerð aðflugsferla fyrir Akureyrarflugvöll. Ferlarnir ganga undir skammstöfuninni RNP-AR og A-RNP. Verkefnið er langt komið, um 85% þess er lokið en Ramon greindi frá því að ferlarnir bjóði upp á meiri nákvæmni og lægri lágmörk en fylgja þurfi mjög stífu ferli við þetta verkefni. Verið er að ljúka hönnun flugferlanna, og eru hönnunargögn svo gott sem tilbúinn. Þá þarf að staðfesta flugferlana, ljúka flugprófunum, fara yfir öryggisferla flugumferðarþjónustu og fá samþykkti frá Samgöngustofu. Sú vinna er í fullum gangi. Ekki er með neinum hætti hægt að stytta sér leið eða gefa afslátt, en þegar allt hefur verið sannreynt verða ferlanir teknir í gildi.
Komi ekki neitt óvænt upp á í öryggisprófunum ánæstu mánuðum er stefnt að því að taka flugferlana í notkun um miðjan maí eða í síðasta lagi um sumarið 2025.
Nákvæmni eykst með nýrri tækni
Þessir ferlar koma til viðbótar öðrum aðflugsleiðum við flugvöllinn og segir Sigrún Björk Jakobsdóttir framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla að nákvæmni aukist með nýrri tækni. „Það er ljóst að það munu ekki allir flugrekendur nýta sér þessa nýju aðflugsferla. Það eru gerðar ríkar kröfur til flugrekenda um búnað loftfara og aukna sérhæfða kostnaðarsama þjálfun flugmanna sem bæði fer fram á staðnum og í hermum. Við teljum allsendis óvíst að allir flugrekendur leggi í slíkan kostnað vegna Akureyrarflugvallar fyrir sinn flugmannahóp.”
Sigrún Björk segir hönnun flugferla í eðli sínu flókið verkefni og um sé að ræða fyrstu A-RNP og RNP-AR flugferla sem hannaðir eru og innleiddir hér á landi. Um sé að ræða nýtt verkefni fyrir alla sem að koma, Isavia, ANS-Flugleiðasögu, Samgöngustofu og hagaðila.
„Það sköpuðust mjög góðar umræður á fundinum um þessi mál, segir hún. „Það er von okkar hjá Innanlandsflugvöllum að verkefnið sé skýrt í huga bæjarfulltrúa og að almenn samstaða verði um að styðja við flugvöllinn sem og markaðsstarf á Akureyri og Norðurlandi. ”