Nýárskveðja frá bæjarstjóra Akureyrar

Miðgarðakirkja í Grímsey. Mynd: Einar Guðmann/akureyri.is
Miðgarðakirkja í Grímsey. Mynd: Einar Guðmann/akureyri.is

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, óskar lesendum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári með þökk fyrir árið sem er að líða.

Gleðilega hátíð,

Þegar ég lít yfir árið sem er að líða, finnst mér eins og við séum á ýmsan hátt að upplifa endurtekið efni: Jörð skelfur að nýju á Reykjanesi, heimsfaraldur Covid-19 er í hæstu hæðum og öll okkar daglegu störf gerast nú enn eina ferðina þung í vöfum.

Í bráðum tvö ár höfum við búið við alls kyns höft og takmarkanir. Við höfum þurft að nota maska, hanska, spritt og ástunda strangar sóttvarnir. Það hefur verið erfitt en við sjáum þó alltaf nýjan leik í stöðunni og vonandi eygjum við senn ljósið við enda ganganna.

Hæfni fólks til að laga sig að breytingum, nýta þær sér til framdráttar og sjá tækifærin í þröngri stöðu, fleytir því áfram veginn og tryggir afkomu þess. Breytingar eru lykillinn að framþróun.

Á tímum faraldursins höfum við séð hversu sveigjanlegur vinnumarkaðurinn getur verið. Tækniframfarir hafa gert okkur kleift að laga okkur að breyttum aðstæðum: Fólk sinnir vinnu sinni að heiman og störf án staðsetningar eru nýr og spennandi veruleiki.

***

Árið hefur sannarlega einkennst af þrengingum í rekstri sveitarfélagsins og var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar afgreidd úr bæjarstjórn með 624 milljóna króna halla. Hins vegar er gert ráð fyrir batnandi afkomu og að við verðum komin aftur á réttan kjöl árið 2023 gangi áætlanir eftir.

Heimsfaraldurinn hefur sett okkur ákveðnar skorður en þrátt fyrir það hefur starfsfólkið fundið þær lausnir sem þarf, haldið uppi kraftmiklu starfi á öllum sviðum og komið í veg fyrir að veiran kafsigldi skútuna í kröppum sjó. Starfsfólk Akureyrarbæjar hefur sýnt að það getur lagað sig að breyttum aðstæðum og sér ný tækifæri í breytingunum.

Ýmsu hefur verið áorkað. Við opnuðum nýjan leikskóla, Klappir við Glerárskóla, lokið var við fyrri áfanga mikilla endurbóta á Lundarskóla, við hófum að innrita 12 mánaða börn í leikskóla, tókum í notkun nýtt aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva, lögðum ljósleiðara yfir sundið til Hríseyjar, skipulögðum nýtt Holtahverfi og Móahverfi, og samþykktum viðamiklar breytingar á stjórnsýslu Akureyrarbæjar sem fela m.a. í sér einföldun á skipulagi og sameiningar sviða. Hér eru aðeins nefnd nokkur atriði sem þó varpa skýru ljósi á þann mikla kraft sem býr í sveitarfélaginu okkar.

Og óneitanlega gleður það mjög, þótt það komi varla mjög á óvart, að íbúum Akureyrar fjölgaði verulega á árinu sem er að líða, enda er gott að búa á Akureyri. Hér blómstrar menningarlífið sem aldrei fyrr og íþróttafólkið okkar skarar fram úr á ýmsum sviðum. Akureyri er gott samfélag sem gerir fólki kleift að þroska hæfileika sína, ná skrefinu lengra og blómstra.

***

Einhvern tímann heyrði ég sagt að til væru tvenns konar fyrirtæki; þau sem hverfa og hin sem breytast. Og á þetta ekki við um öll lifandi kerfi, jafnvel manneskjuna sjálfa? Ef fólk breytist ekki og þroskast þá lifir það varla lengur. Og hið sama má segja um stofnanir og stór sveitarfélög. Við þurfum sífellt að vera vakandi fyrir því sem betur má fara, því sem þarf að breyta, og við þurfum að kunna að halda sjó við breyttar aðstæður.

Fyrir utan þann miska sem kórónuveiran hefur valdið okkur á því ári sem nú er brátt á enda, þá urðum við fyrir ýmsum öðrum skakkaföllum og sárast þótti mér þegar Miðgarðakirkja í Grímsey brann til grunna 21. september. Það var mikið áfall en hefur þjappað íbúum eyjarinnar enn betur saman og allt útlit er fyrir að innan tíðar rísi ný kirkja á grunni hinnar gömlu sem er ákaflega gleðilegt.

Bráðum eru liðin tvö ár síðan kórónuveiran skaut upp kollinum á Íslandi. Fyrirsjáanleiki er enginn, það er snúið að gera áætlanir til lengri tíma, en það sem mun halda okkur á floti og bera okkur inn í bjartari framtíð, er hæfni okkar til að laga okkur að breyttum aðstæðum og mæta erfiðleikum með djörfung og þor.

Lát ei kúgast þanka þinn
þá er efni vandast.
Þú skalt fljúga á forlögin,
fella þau og standast.

Þannig orti rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð forðum daga og við skulum gera þessi orð að okkar. Mætum nýju ári með reynsluna í farangrinum og brjóstið fullt af trú, von og kærleika.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vona að nýtt ár færi ykkur velsæld og hamingju.

Ásthildur Sturludóttir,
bæjarstjóri á Akureyri

Nýjast