Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Ný flugstöð formlega tekin í notkun í dag á 70 ára afmæli Akureyrarflugvallar
Nýja flugstöðin á Akureyrarflugvelli verður formlega tekin í notkun í dag, fimmtudaginn 5. desember sem og nýtt flughlað. Vígsla nýrrar flugstöðvar er ekki tilviljun nú í byrjun desember en í upphafi jólaaðventunnar fyrir 70 árum, nánar tiltekið sunnudaginn 5. desember 1954, var flugvöllurinn vígður. Þá lentu tvær flugvélar Flugfélags Íslands þar í fyrstu farþegaflugunum um Akureyrarflugvöll.
Sigrún Björk Jakobsdóttir framkvæmdastjóra Isavia Innanlandsflugvalla segir það enga tilviljun að 5. desember nú sjö áratugum síðar hafi orðið fyrir valinu sem vígsludagur nýrrar flugstöðvar. „Það var mikið fagnaðarefni þegar völlurinn var fyrst tekinn í notkun og var í blöðum árið 1954 haft eftir Agnari Kofoed-Hansen, þáverandi flugvallarstjóra Íslands og síðar flugmálastjóra, að vagga farþegaflugs á Íslandi hefði staðið á Akureyri rúmlega 16 árum áður með stofnun Flugfélags Akureyrar 1937.“ Sigrún Björk segir að nýja flugstöðin hafi nú þegar sannað gildi sitt og muni gagnast í þeirri góðu þróun sem orðið hafi í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Byggingin muni þjóna farþegum og flugfélögum á vellinum vel.
Þá hefur nýja flughlaðið að sögn Sigrúnar verið mikilvæg viðbót fyrir getu flugvallarins í neyðartilvikum. „Við höfum tekið í notkun nyrðra hlaðið sem er um 33 þúsund fermetrar að flatarmáli og er með skilgreind tvö þotustæði, en í allt er nú hægt að taka á móti 12 til 14 flugvélum á Akureyrarvelli komi upp neyð.“
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún segir að gert sé ráð fyrir lóðum fyrir flugskýli vestan megin við flughlaðið, en tryggt fjármagn sé ekki fyrir hendi á samgönguáætlun til að gera lóðirnar byggingarhæfar. „Við vitum af eftirspurninni fyrir norðan, þannig að það er mikilvægt að koma þessu verkefni af stað á næstu árum,“ segir hún.
Um 200 þúsund manns fara um flugstöðina
Nú á árunum eftir kórónuveirufaraldur hefur árlegur fjöldi farþega í innanlandskerfinu verið í kringum 700 þúsund en var um 800 þúsund farþegar fyrir faraldur. Það sé því merkjanleg breyting á hegðun í innanlandsflugi að sögn Sigrúnar. Á árunum 2007 og 2008 nýtti yfir ein milljón farþega sér innanlandsflugið og eru það einu árin í sögunni sem svo er. „Flugvellir með minna en milljón farþega eru skilgreindir sem örflugvellir á heimsvísu, og við erum að reka örkerfi en samt sem áður mjög mikilvægt flugvallakerfi. Um Akureyrarflugvöll fara um 200 þúsund farþegar árlega og það er virkilega gaman að sjá þá þróun sem verið hefur á vellinum, hlutfall millilandafarþega fer vaxandi og er núna tæplega 16% af heildarfjölda sem um völlinn fer.“
Hvatakerfi skilar árangri
Nefnir Sigrún að sett hafi verið upp þriggja ára hvatakerfi sem felur í sér að veittir eru afslættir af farþega- og lendingargjöldum og geta þau flugfélög sem reglubundið fljúga til Akureyrar gengið inn í það kerfi. Afsláttur á vél með 150 farþega getur numið 200 til 250 þúsund krónum. Ekki er heimilt að veita afslátt af vopnaleitargjaldi.
„Við höfum skoðað aðra áfangastaði í norður Skandinavíu til samanburðar og það er ljóst að þessir styrkir eru veglegir og virka vonandi hvetjandi. Þessi áfangastaðir eiga það sameiginlegt að farþegar eru að njóta þess að baða sig í vetrarmyrkrinu og norðurljósunum og njóta þeirrar afþreyingar sem er í boði um vetur, og jafnvel kíkja á jólasveina,“ segir hún.
Áhugi fyrir Norðurlandi
Stuðst er við landamærakannanir Ferðamálastofu í kynningarstarfi en í þeim er m.a. spurt hvaða svæði fólk vill heimsækja næst. Niðurstaðan sé sú að um 70% ferðamanna vilja koma aftur til Íslands og mikill meirihluti hefur áhuga fyrir að heimsækja Norðausturland í næstu ferð.
Nú í vetur verður gerð landamærakönnun á Akureyrarflugvelli með stuðningi ráðuneytis ferðamála. Sigrún segir að mjög forvitnilegt verði að sjá hvað komi fram hjá ferðafólki í þeirri athugun.
„Við munum áfram verða í þéttu samstarfi við flugfélögin, halda úti kynningarstarfi á möguleikum og aðdráttarafli Norðausturlands og sækja helstu ráðstefnur flugfélaga erlendis til að kynna áfangastaðina Akureyri og Egilsstaði,“ segir Sigrún.
Hún bætir við að flugfélög taka sér langan tíma í undirbúning og ákvarðanatöku áður en þau hefja flug á nýja áfangastaði. Sem dæmi hafi tekið flugfélagið easyJet 10 til 12 ár að skoða hvort hagkvæmt væri að fljúga til Akureyrar. „Flugfélag eru lengi að ákveða að koma, en geta svo verið mjög snögg að ákveða að leggja áætlun niður ef að vindar breytast. Við þurfum því að sækja ákveðið inn á markaðinn og halda svo vel utan um þá aðila sem ákveða að koma til okkar.“
Akureyrarflugvöllur Mynd Hörður Geirsson