Ný flokkunarstöð rís á Akureyri

Tölvugerð mynd af því hvernig húsið mun líta út  Myndir  sulurehf.is
Tölvugerð mynd af því hvernig húsið mun líta út Myndir sulurehf.is

Súlur Stálgrindarhús ehf. hafa nýverið gert verksamning við Íslenska Gámafélagið ehf. um byggingu nýrrar flokkunarstöðvar við Ægisnes á Akureyri. Um er að ræða stálgrindarhús, alls 1.350 fermetrar að flatarmáli, með vegghæð upp á 9,7 metra. Byggingin mun hýsa flokkunaraðstöðu sem mun gegna lykilhlutverki í meðhöndlun úrgangs á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að uppsetning hefjist síðsumars um leið og byggingarefni berst á verkstað, og áætlað er að framkvæmdirnar taki um átta til tíu vikur frá þeim tímapunkti. Þessi nýja flokkunarstöð er hluti af víðtækari áætlun Íslenska Gámafélagsins um uppbyggingu og endurbætur á innviðum sínum á landsvísu, með sérstakri áherslu á umhverfisvæna úrgangsmeðhöndlun og bætt þjónustu við íbúa og fyrirtæki.

Kristján Heiðar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlur Stálgrindarhús ehf., segir verkefnið bæði spennandi og mikilvægt fyrir svæðið:
,,Við erum afar stolt af því að taka þátt í þessu verkefni sem styrkir innviði fyrir umhverfisvæna starfsemi á Norðurlandi. Það er okkur sérstakt ánægjuefni að vinna með Íslenska Gámafélaginu að því að skapa lausnir sem bæði mæta kröfum nútímans og stuðla að sjálfbærari framtíð."

 

Kristján Heiðar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlur Stálgrindarhús og Jón Þór Frantzson forstjóri Íslenska Gámafélagsins undirrita verksamning um bygginguna
 

Frá þessu segir á sulurehf.is

Nýjast