Ný bók frá Gunnari J. Straumland
Út er komin hjá bókaútgáfunni Sæmundi ný bók eftir Húsvíkinginn Gunnar J. Straumland.
Áður hafa komið út eftir hann bækurnar Höfuðstafur, háttbundin kvæði, árið 2019 og Kurteisissonnettan og önnur kvæði árið 2023. Einnig birtist rímnaflokkur hans, Rímur af kvíaflóttanum mikla, í bókinni Samtímarímur sem út kom í byrjun árs 2025.
Í bók þessari finnur lesandinn kvæði ort undir fjölbreyttum háttum. Má þar nefna sonnettur, dróttkvæði, limrur og ferskeytlur, hefðbundnar svo og aldýrar eða undir afdráttarhætti, sléttubönd refhverf, hringhend og aldýr, griplukvæði og kvæði ort undir fjölda annarra afbrigða háttbundins kveðskapar.
Hálfkæringur, bjartsýni, tregi, hæðni, lífsgleði, uppörvun, aulahúmor, svartsýni, ást, hamingja, kímni, rómantík, efi, ádeila, upphafning, uppljómun og íhygli spretta á stuðlanna þrískiptu grein í þessari fjölóma kvæðabók.
Kápumynd bókarinnar er vatnslitamynd Gunnars og ber sama titil og bókin.