Annar áfangi í 100 ára sögu félagsins

Aldarafmæli íþróttafélagsins Völsungs nálgast óðfluga en félagið verður 100 ára 12. apríl 2027. Undirbúningur fyrir stórafmælið er þegar hafinn og má eiga von á miklum hátíðarhöldum. Liður í því að fagna þessum merka áfanga í sögu félagsins og samfélagsins alls er heimasíða sem sett var í loftið á afmælisdegi Völsungs á síðasta ári. Síðan hefur að geyma sögu félagsins frá upphafi en fyrsti áfangi sögunnar hefur að geyma forsögu þess að félagið var stofnað og fyrstu ár þess, 1927-1960.

Annar áfangi

Á 98 ára afmæli Völsungs sem verður í næsta mánuði verður öðrum áfanga sögunnar hleypt af stokkunum en Jónas Halldór Friðriksson segir að til standi að gera eitthvað skemmtilegt á afmælisdaginn og bjóða gestum og gangandi upp á veitingar. „Við héldum upp á afmælið í Vallarhúsi Völsungs á síðasta ári þegar heimasíðan var sett í loftið og mæting var svo góð að við erum að skoða það að vera í stærri sal í ár,“ segir Jónas en afmælið er 12. apríl nk.

Margir kostir við rafrænu leiðina

Þá segir Jónas að horfið hafi verið frá því að gefa út sögu Völsungs á prenti vegna ærins kostnaðar en ekki síður vegna þeirra möguleika sem rafræn útgáfa býður upp á. „Þetta er í rauninni ólíkt hefðbundnu söguriti að því leitinu til að við erum með söguna, heimildir og ítarefni á sama stað. T.d. hægt að smella á hlekki við einhverja söguskýringu og sjá mynd eða jafnvel myndband á viðburðinn sem er til umfjöllunar,“ útskýrir Jónas og bætir við að stefnt sé á að birta kafla í kringum afmæli félagsins 12. apríl á hverju ári fram að hundrað ára afmæli félagsins 2027. Eins og áður segir má nú þegar skoða efni frá stofnun félagsins til ársins 1960. Næst tekur sögunefndin fyrir næstu tvo áratugi í sögu félagsins eða árin 1960-80 sem kemur út 12. apríl nk.

Sögunefnd Völsungs stendur að gerð þessarar síðu en þá nefnd sitja Ingólfur Freysson (formaður), Dóra Ármannsdóttir, Sóley Sigurðardóttir, Leifur Grímsson og Jónas Halldór.

Bjóða upp á að rita nafn sitt á spjöld sögunnar

Þó að ekki sé um prent- eða dreifingarkostnað að ræða við útgáfuna, þá er hún engu að síður kostnaðarsöm enda virkilega vandað til verks. Jónas segir að ætlunin sé að leita til stuðningsfólks Völsungs nær og fjær til að aðstoða við kostnaðinn.

„Eins og ég segi þá erum við að setja annan áfanga í loftið núna . Þó þetta sé gert með eins ódýrum hætti og mögulegt er þá er alltaf kostnaður við að skrásetja sögu og því langar okkur að bjóða fólki að verða stuðningsaðili sögunnar. Með því að greiða 5.000 til 10.000 kr. inná reikning sögunefndar er hægt að gerast stuðningsaðili Sögu Völsungs. Nöfn Stuðningsaðila munu svo birtast í stafrófsröð á heimasíðu Sögu Völsungs,“ útskýrir Jónas en þar má segja að vart gefist betra tækifæri til að rita nafn sitt á blað sögunnar.

Guðmundur Friðbjarnarson tók saman textann á síðunni og myndir. Textinn er að mestu unninn upp úr Sögu Húsavíkur, III. bindi. Aðrar heimildir eru 50 ára afmælisrit ÍF Völsungs og 50 ára afmælisrit HSÞ. Myndirnar voru flestar fengnar af Héraðsskjalasafni Þingeyinga. Vilhjálmur Pálsson var nefndinni innan handar með að veita upplýsingar um myndir sem þörfnuðust útskýringa.

Arngrímur Arnarson annaðist uppsetningu síðunnar og hefur verið tæknilegur ráðgjafi nefndarinnar.

 Lifandi saga

Á næstu árum verður þessi vefur unninn áfram og bætt við fleiri köflum en stefnt er að því að lokaáfangi fari í loftið á 100 ára afmælinu. Það er þó ekki þar með sagt að það verði síðasti kaflinn í sögu félagins þó formlega verði verkefninu lokið enda er sagan lifandi og félagið mun eflaust vera til áfram um ár og aldir. Þá býður rafrænn söguvefur auðvitað upp á það að hægt sé að koma með lagfæringar og uppfærslur í rauntíma.

Hér eru reikningsupplýsingar fyrir þá sem vilja fá nafn sitt ritað á heimasíðu Sögu Völsungs:

Reikningsnúmer er: 0567-14-350020
Kennitala: 710269-6379

Nýjast