Norðurþing hvetur íbúa til að huga að umhverfi sínu
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á dögunum tillögu meirihlutans um að farið verði í umhverfisátak í sveitarfélaginu árið 2025.
Markmið átaksins er fegrun umhverfis, betri ásýnd og aukið staðarstolt. Sveitarfélagið hvetur fólk, býli, fyrirtæki og stofnanir til þátttöku í átakinu. Stofnanir sveitarfélagsins gangi á undan með góðu fordæmi.
Venju samkvæmt hefur verið haldinn hreinsunardagur að vori og veitt umhverfisverðlaun sbr. fyrri ákvörðun í sveitarstjórn frá 90. fundi hennar þann 19. mars 2019.
„Fegrun umhverfis getur haft bæði félagsleg og tilfinningaleg áhrif auk þess að fara vel með náttúruna okkar. Þegar við finnum fyrir staðarstolti hvar sem við búum, lifum og störfum í sveitarfélaginu og erum við líklegri til að finna fyrir sterkari tengingu við samfélagið og eykur jákvæðni. Um leið verður samfélagið meira aðlaðandi fyrir okkur sjálf, gesti og ferðafólk. Þegar fólk hugsar vel um svæðið sitt verður það líklegra til að halda því við. Þar af leiðandi verður til menning ábyrgðar gagnvart umhverfi okkar,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar.