20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Norðurorka lækkar samfélagsstyrki á næsta ári
Stjórn Norðurorku hefur samþykkt að lækka styrki en fyrirtækið hefur undanfarin ár veitt styrki til margvíslegra verkefna og málefna.
Fyrir liggur að reksturinn er og verður þungur næstu ár vegna kostnaðarsamra framkvæmda, m.a. vegna öflunar á heitu vatni og mikilla framkvæmda á starfssvæði Norðurorku. Með því að lækka fjárhæðir styrkja verulega er hægt að draga úr gjaldskrárhækkunum sem því nemur.
Eimur fær óbreyttan styrk en Vistorka ekkert
Bakhjarlastyrkir lækka úr 7 milljónum króna í 5, samfélagsstyrkir úr 10 milljónum í 5 og stjórnarstyrkir sömuleiðis og þá lækka stjórnendastyrkir úr 3 milljónum í 1,5 milljónir króna. Stjórn samþykkti einnig að veita samfélagsverkefninu Eim styrk að upphæð 15 milljónir króna en það er sama upphæð og áður.
Hins vegar ákvað meirihluti stjórnar að veita Vistorku ekki styrk í ár, en félagið er í 100% eigu Norðurorku. Hilda Jana Gísladóttir benti á að ekki væri aðeins um samfélagsstyrk að ræða til Vistorku heldur hluta af fjármögnun félagsins. „Það er óeðlilegt að stjórn Norðurorku taki þessa ákvörðun með svo skömmum fyrirvara, án samtals við stjórn Vistorku um framtíð félagsins eða skuldbindingar. Ekki liggur fyrir í hvaða farveg verkefni Vistorku eiga að fara í kjölfarið, né hvort eða hvaða skuldbindingar Vistorka hefur á næsta rekstrarári," segir í bókun hennar.
Heildarfjárhæð styrkja Norðurorku var 63,3 milljónir króna á yfirstandandi ári. Hann verður tæplega 32 milljónir á næsta ári.