13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Norðlendingar fagna því að ferðast beint frá Akureyrarvelli
mth@vikubladid.is
Mjög vel er bókað í fyrsta flug Niceair frá Akureyri til Kaupmannahafnar 2. júní næstkomandi og segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri félagsins að sumarið lofi góðu. Bókunarvélin var opnuð í liðinni viku „og viðtökur hafa verið framar vonum,“ segir hann. Mikið er þegar um bókanir í sumar og fram á haustið.
Þorvaldur Lúðvík segir að þrír áfangastaðir verði í boði fyrst um sinn, Kaupmannahöfn, London og Tenerife. Flogið verður til Kaupmannahafnar tvisvar í viku, á fimmtudögum og sunnudögum og kosta ódýrustu sætin tæplega 20 þúsund krónur. Til Tenerife verður flogið einu sinni í viku, á miðvikudögum og kostar á bilinu 40-60 þúsund krónur miðinn þangað. Flogið verður til London tvisvar í viku, á föstudögum og mánudögum og er flugmiði þaðan á bilinu 17 til 35 þúsund krónur. Áætlanir á þessa þrjá staði eru settar upp út september.
Vetraráætlun birt á næstu dögum
Vetraráætlun verður birt á næstu dögum og segir Þorvaldur Lúðvík að greinilegur áhugi sé fyrir ferðum í haust og fram eftir vetri. „Það er alveg greinileg að fólk hér á svæðinu tekur því fagnandi að geta ferðast frá Akureyrarflugvelli og losnað þannig við mikla fyrirhöfn og kostnað við að koma sér suður á Keflavíkurflugvöll, en það munar um minna “ segir hann.
Vörusala verður um borð á hefðbundnum fríhafnarvarningi, ilmvötnum, skartgripum og vínum sem dæmi og einnig verður hægt að kaupa mat og drykk gegn hóflegu gjaldi. Reynt verður sem kostur er að bjóða upp á veitingar úr hráefni af heimasvæði flugfélagsins við Eyjafjörð.
Þá mun félagið bjóða upp á kaup í gegnum netið fyrir flug, þannig að fríhafnarvarningur verði afhentur á leið úr landi eða þegar heim verður komið. Það felur að sögn Þorvaldar Lúðvíks í sér mikið hagræði í takmörkuðum fermetrafjölda Akureyrarflugvallar.
Félagið hefur fest sér Airbus A319 flugvél með 150 sætum. Vélarnar eru langdrægar og henta vel fyrir aðstæður á Akureyri. Þær hafa að auki gott fraktrými. Um 20 störf skapast beint við flugreksturinn á Akureyri með tilkomu flugfélagsins, en áhafnar verður bæði innlendar og erlendar. Óbeinn starfafjöldi verður mun meiri.